Of mikil lundaveiði í Eyjum

Lundaveiði er helmingi of mikil að sögn Erps.
Lundaveiði er helmingi of mikil að sögn Erps. mbl.is/Rax

Doktor í líffræði telur að undanfarna áratugi hafi lundaveiði í Vestmannaeyjum verið að jafnaði helmingi meiri en sjálfbær viðmið segja til um.

Þetta kemur fram í niðurstöðum í rannsókn Dr. Erps Snæs Hansens, líffræðings hjá Náttúrustofu Suðurlands, á lundastofninum í Vestmannaeyjum. „Veiðar hafa verið of miklar síðustu hálfa öld,“ segir Erpur.

Sjálfbært veiðimagn 36.300 fuglar

Heildar lundastofninn á Íslandi er um 2,5-3 milljónir fugla. Mest er veitt af lunda í Vestmannaeyjum og var lundastofninn þar metinn um 830 þúsund pör árið 2010. Þar hafa að meðaltali verið veiddir 77.600 fuglar ári á árunum 1968-2007. Samkvæmt útreikningum er sjálfbært veiðimagn á sama tíma 36.300 fuglar.

Ekki tilkynnt um alla veidda fugla

Erpur segir að einhverra hluta vegna sé ekki tilkynnt um alla þá fugla sem veiddir eru. Þannig fari veiðidagbækur ekki saman við þær tölur sem gefnar eru upp til Umhverfisstofnunar.

„Það er losarabragur á því hvernig menn tilkynna um veiði sína. Gögn sýna að einungis helmingur af því sem er veitt er gefið upp. M.ö.o. það vantar helminginn af veiðinni miðað við veiðidagbækur veiðifélaga í Vestmannaeyjum,“ segir Erpur.

Niðurstöður kynntar í haust

Hann segir að mjög góðar tölur berist frá skotveiðimönnum til Umhverfisstofnunar. En lundaveiðar séu annars eðlis og hann kann ekki sérstakar skýringar á því hvers vegna rangar veiðitölur berist til Umhverfisstofnunar. „Ég held að þetta sé vandamál á landsvísu. Það eru á milli 100-200 menn sem veiða flesta þessa fugla,“ segir Erpur.

Fyrirhuguð er útgáfa í haust þar sem rannsóknarniðurstöður Erps eru kynntar. Ná þær til lunda en einnig til annarra tegunda svartfugla.

Erpur Snær er hér til hægri ásamt Ingvari Atla Sigursðssyni …
Erpur Snær er hér til hægri ásamt Ingvari Atla Sigursðssyni forsöðumanns Náttúrustofu Suðurland. mbl.is/Sigurgeir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert