Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ekkert nýtt hafa komið fram í kynningu ráðuneytisins fyrir formönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á föstudag.
Ummæli um að horfur í ríkisfjármálum væru dekkri en haldið hafi verið fram beri merki um slæman undirbúning Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formann Framsóknarflokksins, sem lét hafa eftir sér í viðtali við Eyjuna í gær að útlitið væri mun dekkra en haldið hafi verið fram í aðdraganda kosninganna.
Hún segir að allar tölur hafi legið fyrir opinberlega, dregin hafi verið upp mynd af þeim verkefnum sem fyrir liggja og hvernig þau gætu litið út. Stjórnarflokkarnir hafi vel gert sér grein fyrir viðkvæmu ástandi ríkisbúskapsins og því hafi þeir ekki lofað útgjöldum upp á hundruð milljarða.