Árbæjarskóli og Klettaskóli í samstarf

Frá Árbæjarskóla
Frá Árbæjarskóla Af vef Reykjavíkurborgar

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum í dag að fyrsti þátttökubekkurinn af fjórum frá Klettaskóla verði í Árbæjarskóla og taki til starfa 1. ágúst 2013.

Í stefnu skóla- og frístundaráðs um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur í grunnskóla er kveðið á um að stofnað skuli til fjögurra þátttökubekkja, undir stjórn Klettaskóla. Þátttökubekkurinn er sérhæft úrræði fyrir þroskahamlaða nemendur, undir stjórn starfsfólks Klettaskóla, en með aðsetur í almennum grunnskóla. Nemendur í þátttökubekk njóta faglegrar þjónustu og þekkingar sérskólans og jafnframt náms og skólastarfs í almennu námsumhverfi. Á sama hátt hefur almenni skólinn aðgang að sérþekkingu og faglegri þjónustu sérskólans, samkvæmt frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Gagnkvæmt samstarf og ávinningur er þannig hafður að leiðarljósi og starfar þátttökubekkurinn sem brú milli almenna skólans og sérskólans.

Frá samþykkt stefnunnar á liðnu ári, hefur starfshópur unnið að undirbúningi fyrsta þátttökubekkjarins og var niðurstaða hópsins að heppilegasti kosturinn fyrir fyrsta bekkinn væri í Árbæjarskóla sem er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur í 1. – 10. bekk. Gert er ráð fyrir að 5 – 6 þroskahamlaðir nemendur á miðstigi hefji þar nám á næsta skólaári.

Áætlaður kostnaður við rekstur fyrsta þátttökubekkjarins í Árbæjarskóla er um 20 milljónir króna á ársgrundvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert