Reynslan af banni við forverðmerkingum á kjötvörum sem sett var á árið 2011 er góð að mati Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.
Hann segir þó að erfitt sé að leggja mat á áhrif bannsins á vöruverð eftir því sem tíminn líður enda séu fleiri þættir sem hafi áhrif á verðbreytingar.
Bannið tók gildi 1. mars 2011 fyrir pakkningar í staðlaðri þyngd og 1. júní fyrir aðrar kjötvörur. Það var liður í því að binda enda á og vinna gegn samráði sem Hagar og tiltekin kjötvinnslufyrirtæki urðu uppvís að.
Undir lok árs 2011 gerði Samkeppniseftirlitið athugun á áhrifum bannsins og segir Páll að hún hafi bent til þess að aukin samkeppni í þessum vöruflokkum hafi leitt til lægra vöruverðs en annars hefði verið. Athuganir ASÍ hafi rennt frekari stoðum undir það.