Mikil aukning hefur verið í sölu á farsínum og tölvum það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs var velta í sölu farsíma 38% meiri en á sama tímabili í fyrra að raunvirði og sala á tölvum og jaðarbúnaði jókst á þessum tíma um 29%.
Velta í sölu á tölvum í apríl jókst um 40,9% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og farsímasala jókst um 68,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, minnkaði um 1,1% á föstu verðlagi og sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 22,7% á milli ára.
Það sem af er þessu ári hefur minni vöxtur verið í sölu á öðrum raftækjum eins og sjónvörpum og hljómflutningstækjum.
Velta í dagvöruverslun dróst saman um 6% á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og um 0,7% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta dagvöruverslana í apríl saman um 1,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hefur hækkað um 5,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Sala áfengis minnkaði um 8% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 6,8% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslunar í apríl um 0,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1,3% hærra í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Aukin sala á fatnaði
Sala á mat og drykkjarvöru var sambærileg við söluna í sama mánuði í fyrra þegar leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum páskanna sem voru í apríl í fyrra en í mars á þessu ári. Litlar breytingar eru sömuleiðis í sérvöruverslunum eins og fataverslun og húsgagnaverslun þegar horft er yfir síðustu fjóra mánuði. Fataverslun hefur aukist að raunvirði um 1,8% og húsgagnaverslun um 2,2% á þessum tíma miðað við sömu mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 5,5% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 6,3% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta fataverslunar í apríl um 0,3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á fötum hækkaði um 0,7% frá sama mánuði fyrir ári.
Velta skóverslunar jókst um 1,7% í apríl á föstu verðlagi og dróst saman um 0,8% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð fyrir ári. Verð á skóm hefur lækkað um 2,4% frá apríl í fyrra.
Velta húsgagnaverslana jókst um 13,2% í apríl frá sama mánuði fyrir ári á föstu verðlagi og jókst um 18,6% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum var 4,8% hærra í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra. Velta í sölu skrifstofuhúsgagna var 46,1% meiri í apríl síðastliðnum samanborið við sama mánuð ári fyrr á föstu verðlagi.
Velta sérverslana með rúm jókst um 35,2% milli ára á föstu verðlagi.
Almennt eru ekki miklar breytingar í kaupmætti og neyslu. Þannig var kaupmáttur launa í mars 1,5% meiri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Nýjasta þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir 2,5% vexti í einkaneyslu á þessu ári.
Fram kemur í tölum Seðlabankans að greiðslukortavelta heimilanna var 5,5% meiri í apríl en í sama mánuði í fyrra. Hins vegar var erlend greiðslukortavelta hér á landi í apríl 18,4% meiri en fyrir ári síðan, eða liðlega 5,2 milljarðar króna. Þannig var velta greiðslukorta erlendra ferðamanna um 9% þeirrar upphæðar sem heimili landsins greiddu með kortum sínum í síðasta mánuði.