Versnandi afkoma afleiðing „ofurskattastefnu“

mbl.is/Sigurður Bogi

Versnandi afkoma ríkissjóðs er afleiðing ofurskattastefnu ríkisstjórnarinnar að mati Samtaka atvinnulífsins. Þetta kemur fram á vefsíðu samtakanna í dag og bent á að þau hafi undanfarin fjögur ár varað við afleiðingum þessarar stefnu og því að hún myndi óhjákvæmilega drepa niður allt frumkvæði í atvinnulífinu og nýsköpun.

„Hagvöxtur undanfarin ár hefur verið knúinn áfram af aukinni einkaneyslu. Aukin einkaneysla hefur að stórum hluta verið knúin með útgreiðslu séreignasparnaðar, sérstökum vaxtabótum úr ríkissjóði og endurgreiðslu banka á vöxtum. Nú er svo komið að þessar lindir eru svo til þurrausnar þannig að hægst hefur á einkaneyslu og ekki hefur tekist að örva atvinnulífið til aukinnar verðmætasköpunar,“ segir ennfremur.

Tekjuhorfur ríkissjóðs hafi farið versnandi þar sem gengið hafi verið á tekjustofna ríkissjóðs í stað þess að breikka þá og tryggja sjálfbærni þeirra. „Fjöldi velmenntaðra Íslendinga hefur farið til annarra landa til að sjá sér og sínum farborða og eru ekki lengur skattgreiðendur hér á landi. Upphafleg markmið um tekjujöfnuð ríkissjóðs eru að óbreyttri skattastefnu víðsfjarri.“

Vefsíða Samtaka iðnaðarins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert