Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri og fjárfestir, var kosin nýr formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á aðalfundi félagsins í gær. Kosið er til formanns til tveggja ára í senn.
Hafdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri World Class og formaður félagsins undanfarin fjögur ár, lét af störfum.
Nýtt átaksverkefni félagsins, Aukinn hlutur kvenna í fjölmiðlum, var kynnt til sögunnar. Verkefnið spannar fjögur ár, hefst í ár og lýkur 2017. Því er ætlað að auka hlut kvenna í fjölmiðlum þannig að konur verði sem sýnilegastar í fréttum og þjóðfélagsumræðu. Á þann hátt stuðlar félagið að því að mannauður sé nýttur sem best og þekking kvenna jafnt sem karla njóti sín í allri umræðu.