4.600 heimili í vanskilum

Heimili í vanskilum hjá Íbúðalánasjóði eru tæplega 4.600 og þar af eru 644 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru því 9,1% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok apríl 2013.

Alls voru 4,6 milljarðar króna í vanskilum í lánasafni einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði í lok apríl. Undirliggjandi lánavirði 86,7 milljarðar króna eða um 13,04% útlána sjóðsins til einstaklinga. Þetta samsvarar 0,14% lækkun frá fyrra mánuði og var undirliggjandi hlutfall lánafjárhæðar í vanskilum í lok apríl 0,18% lægra en sama hlutfall í apríl 2012.

Lögaðilar með 2,9 milljarða í vanskilum

Samkvæmt mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs nam fjárhæð vanskila útlána til lögaðila alls um 2,9 milljörðum króna og nam undirliggjandi lánavirði 33,5 milljörðum króna.

Tengjast því vanskil um 22,4% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila, sem samsvarar 0,4% lækkun frá fyrri mánuði en er 0,9% hærra hlutfall en í lok apríl 2012. Vanskil eða frystingar ná samtals til 14,76% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í apríl 2012 nam 14,74%.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í apríl 2013 námu 703 milljónum króna en þar af voru um 699 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í apríl 2012 um 700 milljónum króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 9,2 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert