Stjórn 365 miðla hefur ákveðið að fréttastofur fyrirtækisins, ritstjórn Fréttablaðsins og fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, verði sameinaðar í eina fréttastofu 365. Jafnframt hefur verið ákveðið að fella allan sjónvarpsrekstur annan en þjónustu fréttastofu undir eina stjórn.
Starfsfólki 365 miðla var greint frá þessu á fundi með stjórnendum nú síðdegis.
Sameinaðri ritstjórn stýra núverandi ritstjórar Fréttablaðsins. Mikael Torfason verður aðalritstjóri og leiðir sameiningarferlið og Ólafur Þ. Stephensen verður ritstjóri. Áfram verða svo starfandi frétta- og vaktstjórar einstakra miðla.
Freyr Einarsson mun stýra sjónvarpsrekstri fyrirtækisins, öðrum en fréttastofum. Undir sjónvarsprekstrinum verður sameinað dagskrársetning og eigin framleiðsla fyrir opna og lokaða dagskrá Stöðvar 2 og sportstöðva og fylgistöðvar Stöðvar 2, sem eru Krakkar, Gull, Bíórásin og PoppTV.
Í tilkynningu frá 365 segir að sameiningin sé rökrétt framhald á aukinni samvinnu ritstjórna 365 miðla undanfarin ár. Með því að stíga skrefið til fulls sé dregið úr tvíverknaði og óhagræði og kraftar rúmlega 100 starfsmanna nýttir betur.
Sameiningunni verður hrint í framkvæmd í áföngum á næstu vikum og mánuðum.