„Hafður að fífli“

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Mér finnst eins og ég hafi verið hafður að fífli í dag [gær] en leið örlítið betur af því ég fékk svo góðan afslátt (þó svo verðið hafi á endanum verið 3 krónum hærra en fyrir viku),“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sem gerir athugasemd við tilboð olíufélaganna frá því í gær.

Hann segir að eldsneytisverð hafi nýverið hækkað um fimm krónur. Það sé „snilldarbragð“ hjá olíufélögunum að hækka verðið, veita „ríflegan“ afslátt og láta nýja háa verðið gilda eftir það.

„Í dag [gær] var þrusu afsláttur á öllum bensínstöðvum að ég held. Síminn stoppaði ekki framan af degi þar sem N1 reið á vaðið og tilkynnti mér í SMS að afsláttur væri 12 krónur þann daginn. Næst kom SMS frá Atlantsolíu og sami afsláttur, síðan fylgdi ÓB á eftir. Allir með sama afslátt. Ég kíkti á heimasíðu Orkunnar og viti menn, 12 krónu afsláttur. Mikið var ég ánægður að sjá þennan afslátt þó svo að hann sé ekki nema 2 krónum meiri en hefðbundinn afsláttur er hjá mér í dag. Ég skráði mig í Afsláttar þrep Orkunnar fyrir síðustu mánaðarmót og þar sem ég nota alltof mikið eldsneyti í hverjum mánuði þá fæ ég 10 krónu afslátt á “minni” stöð,“ skrifar Kristján á bloggsíðu sína.

Hann segist hafa ekið fram hjá bensínstöð Atlantsolíu og Orkunnar í gær og sé að útsöluverð bensíns hafi verið um það bil 241 kr.

„Þá hrökk ég við og trúði ekki mínum eigin augum, ég hafði keypt bensín fyrir rúmri viku og þá kostaði líterinn (á skilti) 236,2 kr. Því næst átti ég leið hjá Orku-stöð við Miklubraut og sá sama verðið þar, eða reyndar eins og venjulega 10 aurum lægra en hjá AO,“ segir Kristján.

„Sem sagt á aðeins einni viku hafði bensín hækkað um 5 krónur og ég held að þessi hækkun hafi komið til framkvæmda á síðustu dögum en ég fylgist nokkuð vel með breytingum á verðlagi (eða reyni það eftir bestu getu en það reynist mjög erfitt þar sem verð hækkar og lækkar ansi oft). Hef ekki fundið fréttir um hækkanir hér heima, einu fréttir um breytingar á olíuverði er erlendis frá og það reyndar lækkanir en það er nú önnur saga.“

Upplýsingar um eldsneytisverð.


mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert