Ofbeldismenn hafa aðgang að veikum konum í meðferð

Forsíða nýjasta tölublaðs Vikunnar.
Forsíða nýjasta tölublaðs Vikunnar.

Á Vogi eru margar veikburða og bágstaddar konur sem eru auðveld bráð fyrir forherta einstaklinga, jafnvel dæmda ofbeldismenn. Þess vegna er nauðsynlegt að aðgreina karla og konur í áfengis- og vímuefnameðferð. Þetta segir dr. Svala Ísfeld Ólafsdóttir í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.  

Svala hefur unnið viðamiklar rannsóknir á kynferðisbrotum.

Hún segir meirihluta þeirra kvenna sem leiti læknishjálpar á Vogi hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, auk annars ofbeldis.

„Það getur því reynst þeim þrautin þyngri að takast á við sjúkdóm sinn ódeyfðar umkringdar karlmönnum sem minna þær á þá ógn sem karlmenn eru eða hafa verið í lífi þeirra. Mikilvægt er að geta hlíft konum í afeitrun við návígi við karlmenn þegar þær þurfa umfram allt á því að halda að finna til öryggis og að sjúkrahúsið sé þeim skjól frá þeirri ógn og þjáningum sem þær koma úr. Í annan stað gerist það iðulega þegar fólk leggst inn á Vog í kjölfar mikillar og oft áralangrar vanlíðunar og höfnunar að það finnur sálufélaga hvert í öðru sem leiðir til hrifningar og ástarsambanda inni á sjúkrahúsinu. Þetta tekur athyglina frá meðferðinni og sjúkdómnum sem er afar óheppilegt,“ segir Svala.

Áhyggjur af aðgengi dæmdra ofbeldismanna að veiku fólki

Undir þetta taka Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir, tveir af stofnendum Rótarinnar, sem er nýstofnað félag um málefni kvenna með áfengist og fíknivanda.

Félagið sendi erindi til landlæknis eftir að dómur féll nýlega í máli Jens Hjartarsonar sem dæmdur var í átta ára fangelsi vegna grófrar líkamsárásar og nauðgunar á ungri stúlku sem hann kynntist á Vogi. Í erindi sínu lýsti Rótin áhyggjum sínum af því að dæmdir ofbeldismenn hafi aðgang að ungum konum og veiku fólki innan heilbrigðiskerfisins.

Guðrún Ebba segir að nauðsynlegt sé að huga að fleiri þáttum en þeim líkamlegu í meðferð. „Okkur langar líka að byggja brýr og skapa meira samstarf milli áfengis- og vímuefnameðferðarstofnana og þeirra sem sérhæfa sig í að vinna með afleiðingar ofbeldis og má þar nefna Drekaslóð, Stígamót, Kvennaathvarfið og Aflið.“

Flytja inn til eldri manna sem sjá þeim fyrir efnum

Í umfjöllun Vikunnar er greint frá nokkrum tilvikum þar sem konur hafa kynnst ofbeldismönnum á meðan þær eru í meðferð .„Systurdóttir mín var í meðferð og kynntist þar eldri manni,“ segir kona um sextugt. „Hann þekkti meðferðarferlið út og inn og notfærði sér það. Ungar stúlkur flytja síðan til þessara manna eftir að meðferð lýkur og þeir sjá þeim fyrir efnum. Þær hafa bara einn gjaldmiðil til að borga með á móti. Foreldrar og skyldmenni standa síðan afllaus gagnvart þessum mönnum.“

Brotið fólk myndar brotin sambönd

Annar viðmælandi Vikunnar segist eiga barnabarn, unga konu, sem fór í meðferð og kynntist þar manni sem beitti hana ofbeldi. „Það samband varð ekki langlíft til allrar lukku en er dæmi um hvernig kynni hefjast á röngum nótum. Í meðferð skapast ákveðið andrúmsloft trúnaðartrausts og samkenndar sem skapar jarðveg fyrir langanir og tilfinningar. Þarna er fólk sem er illa farið og það er staðreynd að brotið fólk myndar brotin sambönd.“

Frétt mbl.is: Nýr ritstjóri boðar breytingar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert