Fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins mætir þörfum stjórnvalda og stjórnsýslu og virkni þess uppfyllir kröfur ríkisins í meginatriðum. Ekkert bendir til að betri útkoma hefði fengist fyrir ríkið með því að nýta aðra lausn en þá sem varð fyrir valinu fyrir tólf árum síðan.
Þetta er meginniðurstaða óháðrar, erlendrar sérfræðiúttektar á Orra, fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Kostnaður kerfisins er innan eðlilegra marka og ávinningur af kerfinu getur réttlætt kostnaðinn. Kerfið hafi skapað verulegt virði fyrir ríkið og stofnanir þess, samkvæmt því sem kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.
„Mælt er með því að kerfið verði notað áfram, en skerpt á stefnumiðaðri stjórnun, ábyrgð og eignarhaldi kerfishluta Orra. Farið verði reglubundið yfir notkun kerfisins og þróunarmöguleika. Til lengri tíma þurfi einnig að vinna að stefnumótun um upplýsingavinnslu ríkisins. Jafnframt er lagt til að miðlæg þjónusta við ríkisstofnanir verði efld.
Fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins er bakvinnslukerfi sem hefur verið í notkun í rúman áratug. Árið 2001 var ákveðið að ganga til samninga við Skýrr hf. um kaup og innleiðingu á Oracle eBusiness Suite fyrir ríkissjóð og stofnanir í A hluta. Orri leysti af hólmi fjölda eldri fjárhags- og launakerfa ríkisins, auk eldri hliðarkerfa. Helstu kerfishlutar Orra auk fjárhagskerfis eru mannauðskerfi, innkaupakerfi og verkbókhald. Fjársýsla ríkisins hefur umsjón með rekstri kerfisins.
Í kjölfar umræðu um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins á haustmánuðum 2012, ákvað fjármála- og efnahagsráðuneytið að láta gera óháða úttekt á kerfinu. Úttektin var framkvæmd af sænska ráðgjafanum Knut Rexed, en hann hefur víðtæka reynslu og þekkingu á opinberri stjórnsýslu. Rexed var aðstoðarráðherra í fjármálaráðuneyti Svía í ríkisstjórn Göran Persson og forstöðumaður Statskontoret, sjálfstæðrar ráðgjafar- og úttektarstofnunar á vegum sænska ríkisins. Eftir að hann lét af störfum þar hefur hann unnið sem sjálfstæður ráðgjafi og m.a. tekið að sér verkefni fyrir Alþjóðabankann, OECD og Evrópusambandið.
Í úttektinni er mat lagt á gæði kerfisins, hversu vel það hentar íslenska ríkinu og stofnunum þess, kostnað við rekstur kerfisins og fyrirkomulag upplýsingamála. Skoðað er hvernig staðið hefur verið að sambærilegum kerfum í nokkrum Evrópuríkjum. Þá er fjallað um eiginleika kerfisins, öryggismál, aðlögunarhæfni og notkunarmöguleika, m.a. með tilliti til þróunar á rafrænni þjónustu hins opinbera. Úttektin snýr jafnframt að virkni kerfisins, kostnaði og umsjón með því. Í lokin eru sett fram tilmæli til stjórnvalda í fjórtán liðum um aðgerðir til framtíðar,“ segir á vef fjármálaráðuneytisins.