Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að allir fyrrverandi og fráfarandi fjármálaráðherrar síðasta kjörtímabils hafi brugðist á mjög undarlegan hátt við þeim ummælum hans að útlit ríkissjóðs sé verra en haldið hafi verið fram í aðdraganda kosninga.
„Enginn fjármálaráðherranna fyrrverandi virðist hafa haft fyrir því að lesa viðtalið við mig áður en þeir fóru að bölsótast yfir því,“ segir Sigmundur í pistli á heimasíðu sinni í dag.
„Þeir endurtaka hver um annan þveran að það sem ég hafi sagt um horfurnar í ríkisfármálum hljóti að snúast um að til standi að hverfa frá þeirri stefnu sem boðuð var fyrir kosningar. Þó sagði ég í fyrrgreindu viðtali og mörgum viðtölum eftir það að staðan og horfurnar séu þvert á móti áminning um mikilvægi þess að standa við fyrirheitin og breyta stefnu stjórnvalda.“
Sigmundur segir málið einfalt. „Ríkisstjórnin lagði fram fjárlög sem ekki munu standast. Það hefur verið ljóst frá upphafi. Ríkisstjórnin lagði líka fram áætlun um þróun ríkisfjármála til ársins 2016 þar sem gert var ráð fyrir talsverðum afgangi af rekstri ríkisins frá árinu 2014. Steingrímur J. Sigfússon vísaði í þessa áætlun í viðtali fyrir nokkrum dögum. Sú áætlun stenst engan vegin ef litið er til þróunar tekna og þeirra útgjalda sem fráfarandi ríkisstjórn hefur þegar lögfest eða gefið fyrirheit um. Með öðrum orðum þeirra eigin spá tók ekki mið af þeirra eigin útgjöldum.“
Hann segist á heimasíðu sinni hvetja fjármálaráðuneytið til að birta fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og hvernig þau muni þróast að óbreyttu. „Það góða við að gera sér grein fyrir stöðunni er að þá er hægt að gera ráðstafanir til að bæta horfurnar með breyttri stefnu og nýtingu sóknarfæra. Það styttist í það.“
Frétt mbl.is: Stóra útgjaldaliði vantaði