Veitir öryggi í brennandi greiðsluvanda

Eirborgir í Grafarvogi.
Eirborgir í Grafarvogi. mbl.is/Ómar

„Við erum ekki að hrekjast yfir í greiðslustöðvun, við tökum sjálf þá ákvörðun að biðja um greiðslustöðvun til að tryggja og staðfesta eignir og réttindi fólksins sem býr á Eir,“ segir stjórnarformaðurinn Jón Sigurðsson. Þetta er gert þar sem Eir stendur frammi fyrir greiðsluvanda.

„Í raun og veru hefur Eir starfað með kyrrstöðusamkomulagi við helstu lánardrottna síðan síðastliðið haust,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Undanfarna mánuði hefur stjórn Eirar unnið að því að leita að úrlausnum á vanda hjúkrunarheimilisins. Jón segir að heimilið standi frammi fyrir tímabundnum greiðsluvanda, sem tengjast lánum sem voru tekin hjá lífeyrissjóðum og hjá Íbúðalánasjóði

„Allar okkar áætlanir og allar okkar upplýsingar sýna að í grunninn er Eir tiltölulega heilbrigð og sterk en er núna í brennandi greiðsluvanda sem við teljum að við getum komist í gegnum á tveimur og hálfu ári.“

Greiðslustöðvun tryggir öryggi

Líkt og fram hefur komið, lagði ný stjórn Eirar fram frumvarp og tillögu í febrúar að frjálsum samningum við íbúðarréttarhafa, sem keypt höfðu búseturétt í öryggisíbúðum, en þeir eru á meðal lánardrottna hjúkrunarheimilisins.

„Við fengum góð málefnaleg viðbrögð. Við fengum [samþykki] 99 prósent þeirra sem búa í íbúðunum og 96 prósent allra, þegar allir erfingjar eru líka teknir með,“ segir Jón. Þar sem allir urðu að svara játandi svo að tilboðið teldist samþykkt varð stjórn Eirar því að leita nauðasamninga.

Jón segir að í núverandi ferli sé í öllum aðalatriðum sé um sama frumvarp að ræða og lagt var fyrir íbúðarrétthafana í frjálsu samningunum. „En nú verður það að gerast með nauðasamningum af því að það náðist ekki fullkomin samstaða,“ segir hann.

„Þegar við erum að fjalla um þetta þá kemur það í ljós að það er traustara fyrir okkur, öruggara og það er staðfastara fyrir fólkið sem býr á Eir, að þetta sé gert með greiðslustöðvun. Ef við erum ekki í greiðslustöðvun á þessu þriggja, fjögurra mánaða skeiði sem nauðasamningarnir ganga yfir, þá þurfum við jafnóðum að framlengja kyrrstöðusamningum. Ef við höfum greiðslustöðvun þá höfum við alveg öryggi,“ segir Jón.

„Við erum ekki að hrekjast yfir í greiðslustöðvun, við tökum sjálf þá ákvörðun að biðja um greiðslustöðvun til þess að tryggja og staðfesta eignir og réttindi fólksins sem býr á Eir,“ segir Jón og bætir við að þetta sé gert svo menn hafi frið, staðfestu og öryggi á meðan nauðasamningarnir standa yfir.

Hvorki dregið úr þjónustu né umönnun

„Ég talaði við stjórnendur hjúkrunar og lækninga í gær. Og það er alveg ljóst að það hefur ekkert verið dregið úr eða minnkað sú umönnun, sú hjúkrun, þau þjónustugæði, sú kunnátta og sú umhyggja sem veitt er á Eir.“

Hann tekur fram að allir starfsmenn Eirar leggi sig fram við að veita íbúunum góða þjónustu.

„Í þeim fjárhagsskorðum sem Eir hefur verið í frá því í haust og verður áfram þá er þetta algjörlega tryggt,“ segir Jón og bætir við að starfsemin sjálf hafi ekkert raskast.

Gegnsætt ferli

Spurður út í ferlið framundan, segir Jón að lögmaður hjúkrunarheimilisins, sem hafi allar upplýsingar varðandi rekstur og fjárhag Eirar, leiti nú eftir greiðslustöðvun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Það sama eigi við varðandi gerð nauðasamninga, þ.e. að ákvörðun er tekin hjá héraðsdómi. Í kjölfarið verður skipaður umsjónarmaður með nauðasamningunum og aðstoðarmaður fyrir stjórnina í greiðslustöðvuninni. „Þá er allur fjárhagurinn undir opinberu eftirliti; þannig að það er alveg gegnsætt ferli,“ segir Jón.

Hann segir að mikil vinna sé framundan varðandi gagnaöflun en það þarf að fylgja mjög ítarleg lýsing á öllum fjárhag heimilisins. „Ég geri ráð fyrir því að þetta sé ferli sem tekur kannski tvær þrjár vikur. Þetta þarf að fara fyrir dóminn og þetta þarf að fá tíma þar. Þetta eru raunverulega tvær umsóknir. Annars vegar um nauðasamninga og hins vegar um greiðslustöðvun.“

Jón segir að nauðasamningarnir taki um það bil tvo og hálfan til þrjá mánuði. „Á þeim tíma munum við þá sækja um að greiðslustöðvunin haldi. Þannig að ég ímynda mér að við séum að tala um þrjá til fjóra mánuði, fram á haustið, sem við yrðum í greiðslustöðvun og í að ljúka þessum verkefnum,“ segir hann.

Hann tekur fram að ekkert nýtt hafi gerst varðandi fjárhag, skuldir, eignir, tekjur og gjöld Eirar. Búið sé að hagræða í rekstrinum og draga úr kostnaði.

Jón bendir á að lokum að brátt fari vinnu við gerð ársreiknings síðasta árs að ljúka. Í því samhengi bendir hann á að aðalfundur Eirar verði haldinn í júní nk.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar.
Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert