Veitir öryggi í brennandi greiðsluvanda

Eirborgir í Grafarvogi.
Eirborgir í Grafarvogi. mbl.is/Ómar

„Við erum ekki að hrekj­ast yfir í greiðslu­stöðvun, við tök­um sjálf þá ákvörðun að biðja um greiðslu­stöðvun til að tryggja og staðfesta eign­ir og rétt­indi fólks­ins sem býr á Eir,“ seg­ir stjórn­ar­formaður­inn Jón Sig­urðsson. Þetta er gert þar sem Eir stend­ur frammi fyr­ir greiðslu­vanda.

„Í raun og veru hef­ur Eir starfað með kyrr­stöðusam­komu­lagi við helstu lán­ar­drottna síðan síðastliðið haust,“ seg­ir Jón í sam­tali við mbl.is.

Und­an­farna mánuði hef­ur stjórn Eir­ar unnið að því að leita að úr­lausn­um á vanda hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins. Jón seg­ir að heim­ilið standi frammi fyr­ir tíma­bundn­um greiðslu­vanda, sem tengj­ast lán­um sem voru tek­in hjá líf­eyr­is­sjóðum og hjá Íbúðalána­sjóði

„All­ar okk­ar áætlan­ir og all­ar okk­ar upp­lýs­ing­ar sýna að í grunn­inn er Eir til­tölu­lega heil­brigð og sterk en er núna í brenn­andi greiðslu­vanda sem við telj­um að við get­um kom­ist í gegn­um á tveim­ur og hálfu ári.“

Greiðslu­stöðvun trygg­ir ör­yggi

Líkt og fram hef­ur komið, lagði ný stjórn Eir­ar fram frum­varp og til­lögu í fe­brú­ar að frjáls­um samn­ing­um við íbúðarrétt­ar­hafa, sem keypt höfðu bú­setu­rétt í ör­yggis­íbúðum, en þeir eru á meðal lán­ar­drottna hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins.

„Við feng­um góð mál­efna­leg viðbrögð. Við feng­um [samþykki] 99 pró­sent þeirra sem búa í íbúðunum og 96 pró­sent allra, þegar all­ir erf­ingj­ar eru líka tekn­ir með,“ seg­ir Jón. Þar sem all­ir urðu að svara ját­andi svo að til­boðið teld­ist samþykkt varð stjórn Eir­ar því að leita nauðasamn­inga.

Jón seg­ir að í nú­ver­andi ferli sé í öll­um aðal­atriðum sé um sama frum­varp að ræða og lagt var fyr­ir íbúðarrétt­haf­ana í frjálsu samn­ing­un­um. „En nú verður það að ger­ast með nauðasamn­ing­um af því að það náðist ekki full­kom­in samstaða,“ seg­ir hann.

„Þegar við erum að fjalla um þetta þá kem­ur það í ljós að það er traust­ara fyr­ir okk­ur, ör­ugg­ara og það er staðfast­ara fyr­ir fólkið sem býr á Eir, að þetta sé gert með greiðslu­stöðvun. Ef við erum ekki í greiðslu­stöðvun á þessu þriggja, fjög­urra mánaða skeiði sem nauðasamn­ing­arn­ir ganga yfir, þá þurf­um við jafnóðum að fram­lengja kyrr­stöðusamn­ing­um. Ef við höf­um greiðslu­stöðvun þá höf­um við al­veg ör­yggi,“ seg­ir Jón.

„Við erum ekki að hrekj­ast yfir í greiðslu­stöðvun, við tök­um sjálf þá ákvörðun að biðja um greiðslu­stöðvun til þess að tryggja og staðfesta eign­ir og rétt­indi fólks­ins sem býr á Eir,“ seg­ir Jón og bæt­ir við að þetta sé gert svo menn hafi frið, staðfestu og ör­yggi á meðan nauðasamn­ing­arn­ir standa yfir.

Hvorki dregið úr þjón­ustu né umönn­un

„Ég talaði við stjórn­end­ur hjúkr­un­ar og lækn­inga í gær. Og það er al­veg ljóst að það hef­ur ekk­ert verið dregið úr eða minnkað sú umönn­un, sú hjúkr­un, þau þjón­ustu­gæði, sú kunn­átta og sú um­hyggja sem veitt er á Eir.“

Hann tek­ur fram að all­ir starfs­menn Eir­ar leggi sig fram við að veita íbú­un­um góða þjón­ustu.

„Í þeim fjár­hags­skorðum sem Eir hef­ur verið í frá því í haust og verður áfram þá er þetta al­gjör­lega tryggt,“ seg­ir Jón og bæt­ir við að starf­sem­in sjálf hafi ekk­ert rask­ast.

Gegn­sætt ferli

Spurður út í ferlið framund­an, seg­ir Jón að lögmaður hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins, sem hafi all­ar upp­lýs­ing­ar varðandi rekst­ur og fjár­hag Eir­ar, leiti nú eft­ir greiðslu­stöðvun hjá Héraðsdómi Reykja­vík­ur. Það sama eigi við varðandi gerð nauðasamn­inga, þ.e. að ákvörðun er tek­in hjá héraðsdómi. Í kjöl­farið verður skipaður um­sjón­ar­maður með nauðasamn­ing­un­um og aðstoðarmaður fyr­ir stjórn­ina í greiðslu­stöðvun­inni. „Þá er all­ur fjár­hag­ur­inn und­ir op­in­beru eft­ir­liti; þannig að það er al­veg gegn­sætt ferli,“ seg­ir Jón.

Hann seg­ir að mik­il vinna sé framund­an varðandi gagna­öfl­un en það þarf að fylgja mjög ít­ar­leg lýs­ing á öll­um fjár­hag heim­il­is­ins. „Ég geri ráð fyr­ir því að þetta sé ferli sem tek­ur kannski tvær þrjár vik­ur. Þetta þarf að fara fyr­ir dóm­inn og þetta þarf að fá tíma þar. Þetta eru raun­veru­lega tvær um­sókn­ir. Ann­ars veg­ar um nauðasamn­inga og hins veg­ar um greiðslu­stöðvun.“

Jón seg­ir að nauðasamn­ing­arn­ir taki um það bil tvo og hálf­an til þrjá mánuði. „Á þeim tíma mun­um við þá sækja um að greiðslu­stöðvun­in haldi. Þannig að ég ímynda mér að við séum að tala um þrjá til fjóra mánuði, fram á haustið, sem við yrðum í greiðslu­stöðvun og í að ljúka þess­um verk­efn­um,“ seg­ir hann.

Hann tek­ur fram að ekk­ert nýtt hafi gerst varðandi fjár­hag, skuld­ir, eign­ir, tekj­ur og gjöld Eir­ar. Búið sé að hagræða í rekstr­in­um og draga úr kostnaði.

Jón bend­ir á að lok­um að brátt fari vinnu við gerð árs­reikn­ings síðasta árs að ljúka. Í því sam­hengi bend­ir hann á að aðal­fund­ur Eir­ar verði hald­inn í júní nk.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar.
Jón Sig­urðsson, stjórn­ar­formaður Eir­ar. mbl.is/Á​rni Sæ­berg
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert