Hæstiréttur hefur fallist á kröfu Vilhjálms Bjarnasonar um að fram fari öflun sönnunargagna vegna tjóns sem hann segist hafa orðið fyrir sem hluthafi í Landsbankanum fyrir hrun. Hæstiréttur fellst hins vegar ekki á að Björgólfi Thor Björgólfssyni verði gert að gefa skýrslu fyrir dómi.
Vilhjálmur kærði til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem var kveðinn upp 2. apríl. Héraðsdómur hafnaði kröfu Vilhjálms um að hann fengi að leiða Björgólf og 16 nafngreind vitni fyrir dóm og að skylt væri að leggja fram tölvubréf lögmanns Samsonar eignarhaldsfélags ehf. þar sem Fjármálaeftirlitinu var tilkynnt snemma árs 2007 um breytt eignarhald á fyrrgreindu félagi.
Krafa Vilhjálms er reist á XII. kafla laga um meðferð einkamála. Vilhjálmur telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Landsbankanum hf. urðu verðlaus og að tjónið mætti a.m.k. að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna sem Björgólfur hefði stuðlað að eða átt þátt í.
Hæstiréttur telur að skilyrði 1. og 2. mgr. 78. gr. laga um meðferð einkamála hafi verið uppfyllt og að þau atvik sem Vilhjálmur leitaði sönnunar um vörðuðu lögvarða hagsmuni hans. Hæstiréttur segir hins vegar að skýrsla verði þó ekki tekin af Björgólfi sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að 3. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála standi því ekki í vegi að sönnunargagna verði aflað til að hafa uppi skaðabótakröfu í einkamáli á grundvelli saknæmrar og ólögmætrar háttsemi, þó svo að sú háttsemi sem sönnunargagna væri leitað um gæti verið refsiverð. Í þessu samhengi er meðal annars vísað til þess að almennar reglur laga um meðferð einkamála gilda um skýrslur sem vitni gefa samkvæmt heimild í XII. kafla laganna.
Hæstiréttur felldi því hinn kærða úrskurð úr gildi og féllst á kröfu Vilhjálms að því undanskildu að Björgólfur var ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.