Stjórn Barnageðlæknafélags Íslands skorar á stjórn Sjúkrahússins á Akureyri að leysa úr þeim vanda sem kominn er upp í málefnum barna og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða en eini barnageðlæknirinn á Norður- og Austurlandi sagði upp fyrir sjö vikum síðan.
Segir í yfirlýsingu stjórnar að almennt sé þjónusta við börn með geðrænan vanda af alltof skornum skammti á landinu. Þjónusta geðlæknis við þennan málaflokk verði enn verri og gerð óaðgengilegri fyrir ákveðin landsvæði.
Gróa B. Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs á Sjúkrahúsinu á Akureyri, segir að allt sé gert sem sé í þeirra valdi til að leysa málefni þessa sjúklingahóps. „Hins vegar eru úrræðin fá ef að ekki fást læknar sem vilja starfa í þeirri liðsheild sem hér er.“ Málið strandi á því.
Gróa segir að sem bráðabirgðalausn liggi fyrir verklag um endurnýjun lyfja. Foreldrar geti því snúið sér til heilsugæslunnar og læknaritara barnadeildar til þess að endurnýja lyf barna sinna.
Yfirlýsing stjórnar Barnageðlæknafélags Íslands í heild sinni:
Stjórn Barnageðlæknafélags Íslands lýsir yfir áhyggjum af stöðu og þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á Akureyri ásamt Norður- og Austurlandi.
Undanfarin ár hefur sérhæfð og þverfagleg þjónusta verið byggð upp á Akureyri fyrir börn og unglinga sem búa á Norður- og Austurlandi og glíma við þroskafrávik eða geðræna erfiðleika.
Nú hefur eini barna- og unglingageðlæknirinn á norðurlandi sagt upp störfum sínum á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Landsvæðið hefur því verið án barnageðlæknis í sjö vikur og ekkert er að gerast í þessum málum.
Almennt er þjónusta við börn með geðrænan vanda af alltof skornum skammti á landinu og oftast er löng bið eftir henni. Nú verður geðlæknisþjónusta við þennan málaflokk enn verri og gerð óaðgengilegri fyrir ákveðin landsvæði.
Stjórn Barnageðlæknafélags Íslands skorar því á stjórn Sjúkrahúsins á Akureyri að leysa þennan vanda eins fljótt og unnt er.
Reykjavík, 16. maí 2013
Fyrir hönd stjórnar,
Bertrand Lauth, formaður
Guðrún B. Guðmundsdóttir, ritari
Dagbjörg Sigurðardóttir, gjaldkeri