Ríkisskattstjóri, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins munu í sumar hrinda úr vör markvissu átaki til að sporna við svartri atvinnustarfsemi, þriðja árið í röð.
Átakið felst í eftirlitsferðum og heimsóknum á vinnustaði án þess að gera boð á undan sér, þar sem kannað verður m.a. hvort staðin hafi verið skil á sköttum og öðrum lögbundnum gjöldum o.s.frv. og verður aðaláherslan lögð á þær atvinnugreinar sem hæst hefur borið í umræðu um að þar þrífist ólögleg starfsemi.
Að sögn Skúla Eggerts hvetja aðilar í fjölmörgum atvinnugreinum til aukins eftirlits, þeirra á meðal eru aðilar í ferðaþjónustu, byggingargreinum og Bílgreinasambandið, sem kalla eftir eftirliti svo bæta megi ástandið og uppræta ólöglega starfsemi þar sem hún finnst. Spurður hvort ástand þessara mála sé að versna segir ríkisskattstjóri að almennt séu virðisaukaskattsskil heldur verri samhliða auknu peningamagni í umferð.