Íslendingar beina byssunum ekki hver að öðrum

Margir eiga skotvopn á Íslandi, t..d til að skjóta meindýr …
Margir eiga skotvopn á Íslandi, t..d til að skjóta meindýr eins og mink og ref. Byssuofbeldi er þó afar fátítt. mbl.is/Rax

Það flæðir allt í byssum á Íslandi, en samt er tíðni ofbeldisglæpa þar sem skotvopnum er beitt ein sú lægsta í heiminum. BBC segir nú frá tilraunum bandarísks laganema til að komast til botns í því hvernig á þessari þversögn stendur.

„Jafnvel þótt ég hafi alist upp á Nýja-Englandi þá var eitthvað nýstárlegt við að sjá íslenskan blindbyl. Hann var lamandi, með sögulegum vindstyrk sem gerði snjókornin eins og lítil rakvélablöð.“

Þannig hefst frásögn Andrew Clark frá leiðangri hans til Íslands í vetur, en hann leggur stund á alþjóðalög við Suffolk-háskóla í Boston.

Brjálæðislegt að vera boðið far af ókunnugum

Í Bandaríkjunum hefur hert skotvopnalöggjöf verið mjög til umræðu í vetur eftir fjöldamorðin í Sandy Hook-barnaskólanum í Newtown þar sem 20 börn og 6 fullorðnir létu lífið. Clark vildi komast að því hvort það væri eitthvað sérstakt í íslenskri samfélagsgerð sem stuðlaði að því að skotvopnaárásir væru fátíðari.

Strax á leiðinni frá BSÍ fékk hann fyrsta menningarsjokkið þegar eldri maður á jeppa keyrði upp að honum, þar sem hann dragnaðist með ferðatöskuna í  snjónum, og bauð honum far. „Þetta hljómaði brjálæðislega. Af hverju ætti ég að setjast inn í bíl með ókunnugum?“ skrifar Clark.

Hann segist þó hafa þegið farið enda hafi hann svo sem vitað að ekkert slæmt myndi gerast. „Ég var nú eftir allt saman á Íslandi til þess að rannsaka lága glæpatíðni. Þetta var önnur ferð mín þangað á sex mánuðum.“

Íslendingar öryggið uppmálað

Clark segist hafa ætlað að skrifa lokaritgerðina sína um netglæpi og Genfarsáttmálana. Síðan fór hann til Íslands í fyrsta sinn og skipti um skoðun. Hann segir að upplifun hans hér hafi slegið hann alveg út af laginu, á jákvæðan hátt.

„Ofbeldisglæpir voru varla til. Fólk virtist afslappað yfir öryggi sínu og barnanna sinna og gekk það svo langt að foreldrar skildu börnin sín eftir úti án þess að fylgjast með þeim. Ég hafði áður komið til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, en í samanburði við Ísland eru þessi lönd núna plöguð af glæpum.

Þegar ég kom aftur til Bandaríkjanna breytti ég rannsóknarefninu mínu. Ég vildi vita hvað Ísland væri að gera rétt,“ skrifar Clark. Hins vegar komst hann að því að ekkert eitt, einfalt svar væri til við því hvers vegna tíðni byssuofbeldis á Íslandi væri ein sú lægsta í heiminum.

Stéttlaust jafnréttissamfélag stuðlar að öryggi

Hann ræddi við háskólaprófessora, stjórnmálamenn, lögfræðinga, blaðamenn og almenna borgara og segist smám saman hafa fengið skýrari mynd af stöðu mála hér á landi, en viðurkennir þó að ómögulegt sé að setja fingurinn á eitthvað eitt.

„Í fyrsta lagi, og mögulega það sem skiptir mestu máli, er að það er nánast enginn munur milli efri stéttar, millistéttar og lágstéttar á Íslandi. Þar af leiðandi er engin spenna milli stétta, sem er fátítt í löndum heims,“ skrifar Clark.

Hann vísar í rannsókn á íslenskri samfélagsgerð sem gerð var við Missouri-háskóla og sýndi að aðeins 1,1% af Íslendingum telji sjálfa sig til efri stéttar og 1,5% telji sig til lágstéttar. Hins vegar líti 97% Íslendinga svo á að þeir tilheyri millistétt eða verkamannastétt.

Clark segist m.a. hafa rætt við þrjá þingmenn á Alþingi og hefur eftir Björgvini Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingar, að á Íslandi sé staðan sú að velferðar- og menntakerfið stuðli að almennu jafnrétti þar sem börn gangi í sama skóla hvort sem foreldrar þeirra séu milljónamæringar eða ekki.

Tugir þúsunda skotvopna í umferð

Clark bendir á að í þeim ofbeldisglæpum sem sannarlega eigi sér stað á Íslandi komi skotvopn sjaldan við sögu, jafnvel þótt Íslendingar eigi gnótt af byssum. Vefsíðan GunPolicy.org vaktar stöðu skotvopnamála um allan heim og áætlar að á Íslandi séu um 90.000 byssur, sem er hátt hlutfall miðað við 300.000 íbúa.

Ísland er á 15. sæti lista allra landa heims þegar kemur að fjölda löglegra skotvopna á hvern íbúa. Clark segir þó ekki auðvelt að verða sér úti um byssu á Íslandi, það þurfi m.a. að gangast undir skriflegt próf og framvísa læknisvottorði. 

Hann bendir á að lögreglan gangi heldur ekki um með skotvopn og aðeins víkingasveitin hafi leyfi til þess að beita slíkum. Þá segir hann vert að geta þess að miðað við víða annars staðar sé tiltölulega lítið um hörð fíkniefni á Íslandi.

Þess ber þó að geta að Clark fer ekki nánar út í það hvers konar skotvopn Íslendingar eiga, en ætla má að til samanburðar við t.d. Bandaríkjamenn sé hér hlutfallslega mun minna af skammbyssum í umferð í því ljósi að þær eru bannaðar nema með ströngum skilyrðum. Byssueign Íslendinga má líklega í flestum tilfellum rekja til skotveiðiáhuga fremur en í sjálfsvarnarskyni.

„Fannst ég vera öruggur“

Eitt af því sem hann telur að kunni að skipta máli er hefð sem hann segir að sé á Íslandi fyrir því að beita forvörnum og grípa inn í þegar ákveðinn tegund glæpa fari vaxandi. Lögreglan beiti sér gegn skipulögðum glæpum af krafti og á Alþingi sé til skoðunar hvernig hægt sé að brjóta upp skipulagða glæpastarfsemi.

Clark segir samfélagsgerðina á Íslandi óviðjafnanlega en í fullkomnum heimi ættu þó aðrar þjóðir heims að geta litið hingað eftir hugmyndum að lausnum við því vandamáli sem ofbeldisglæpir eru víða.

„Þegar ég steig upp í aftursætið á jeppanum hjá manninum þennan morgun þá brosti hann til mín og spurði hvort ég þyrfti aðstoð með farangurinn. Og jafnvel þótt ég þekkti hann ekki neitt, þá fannst mér ég öruggur.“

Umfjöllun BBC: Why is violent crime so rare in Iceland?

Það vekur oft athygli útlendinga að Íslendingar skuli upplifa samfélagið …
Það vekur oft athygli útlendinga að Íslendingar skuli upplifa samfélagið nógu öruggt til að láta börnin sín sofa úti í barnavögnum án þess að stöðugt sé staðið yfir þeim. mbllis/Ómar Óskarsson
Íslenska lögreglan er fyrst og fremst vopnuð hraðamyndavélum.
Íslenska lögreglan er fyrst og fremst vopnuð hraðamyndavélum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Skotfélag Reykjavíkur er eitt þeirra sem býður aðstöðu til skotfimiæfinga. …
Skotfélag Reykjavíkur er eitt þeirra sem býður aðstöðu til skotfimiæfinga. Þótt margir stundi það sport er byssuofbeldi fátítt. mbl.is/Golli
Þjóðleg merking á veiðigalla eins skotveiðimanns.
Þjóðleg merking á veiðigalla eins skotveiðimanns. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Leirdúfuskotfimi æfð í Álfsnesi.
Leirdúfuskotfimi æfð í Álfsnesi. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert