Hefja gjaldtöku til verndar Laugaveginum

„Það þarf að bæta stíga, bæði merkingar og eins þarfnast viðkvæmir hlutar leiðarinnar uppbyggingar. Huga þarf að salernisaðstöðu á milli skála o.m.fl. enda þarf að þjónusta allt fólkið sem fer þarna um. Þetta er því margþætt,“ segir Elín Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna, um tilefni þess að fyrirtækið hefur innleitt sérstakt gjald af ferðum á Laugaveginum.

Gjaldið er 1% af fargjaldinu og er því meðal annars ætlað að laga skemmdir vegna átroðnings og koma í veg fyrir að landið láti meira á sjá vegna sívaxandi straums ferðamanna um svæðið. Gjaldtakan hófst í fyrrahaust af ferðum sem eru farnar frá og með þessu sumri. Verður gjaldið varanlegt.

Í samstarfi við nokkra aðila

Að sögn Elínar mun fyrirtækið eiga í samvinnu við Ferðafélag Íslands, sveitarfélagið Rangárþing, samtök sjálfboðaliða sem tengjast Umhverfisstofnun og aðra sem hagsmuna eiga að gæta, um hvernig fénu er ráðstafað.

„Það er hluti af okkar umhverfis- og samfélagsstefnu að leggja okkar af mörkum til þeirra svæða sem við ferðumst um, þannig að okkur fannst full ástæða til þess að stíga þetta skref,“ segir Elín.

Hún áætlar að mörg hundruð manns fari Laugaveginn með fyrirtækinu í sumar.

„Ekki er ennþá ljóst hver upphæðin verður þetta árið en þótt ekki sé um digran sjóð að ræða er ljóst að hann mun nýtast vel og verður gjaldið lagt á fleiri ferðir fyrirtækisins í framtíðinni. Við höfum kallað þetta „skattlagningu á okkur sjálf“ segir Elín um þetta skref fyrirtækisins.

Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið landsins. Hún er um 55 …
Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið landsins. Hún er um 55 kílómetra löng og tengir Landmannalaugar og Þórsmörk. mbl.is/Rax
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka