Yfirgnæfandi meirihluti Evrópuríkja fær falleinkunn þegar kemur að stöðu og réttindum hinsegin fólks, í nýrri úttekt Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe). Þúsundir búa enn við ótta um ofbeldi og ofsóknir. Ísland þokast upp á við á sviði löggjafar og stefnu stjórnvalda, en enn er margt ógert, að sögn Samtakanna 78.
Evrópski regnbogapakkinn svo kallaði kom út í dag í tilefni Alþjóðadags gegn hómófóbíu og transfóbíu þann 17. maí. Regnbogapakkinn er árleg úttekt ILGA Europe á stöðu mannréttinda hinsegin fólks og samanstendur af Regnbogakorti og Ársyfirliti.
Kortið mælir stöðu löggjafar og stefnu á sviðum jafnréttis og aðgerða gegn mismunun, fjölskyldumála, hatursorðræðu og -ofbeldis, lagalegrar staðfestingar kyns, funda-, félaga- og tjáningarfrelsis og málefna hælisleitenda. Mælt er í 49 Evrópuríkjum og stig gefin á skalanum 0 til 100%. Ársyfirlitið, sem nú er gefið út í annað sinn, veitir innsýn í daglegt líf og umhverfi hinsegin fólks en saman draga skjölin upp heildarmynd af stöðu hinsegin fólks í Evrópu.
Samanburður á ólíkum ríkjum sýnir gjörólíka þróun mála. Sum lönd þokast í átt að jöfnum rétti til hjónabands, betri vernd gegn mismunun og ofbeldi og tryggja auðveldari og mannúðlegri ferla varðandi lagalega staðfestingu kyns. Þessi framþróun gerist hinsvegar oft samhliða samfélagslegu bakslagi og auknu ofbeldi. Í öðrum löndum veldur helst áhyggjum þróun í átt að hamlandi og óréttlátri lagasetningu eins og þeirri sem bannar „samkynhneigðaráróður“.
Martin K.I. Christensen, annar tveggja formanna ILGA Europe segir að Regnbogapakkinn sýni að hinsegin fólk eigi enn mjög langt í land. „Ekki eitt einasta ríki í Evrópu uppfyllir mælikvarðana. Í mörgum löndum snýst baráttan jafnvel ennþá um þau grundvallar borgara- og stjórnmálaréttindi sem við sem búum í lýðræðissamfélögum tökum flest sem sjálfsögðum hlut. Sú staðreynd að sum þessara landa eru innan ESB er okkur líka sérstakt áhyggjuefni,” segir Christensen.
Gabi Calleja, hinn formaður félagsins, bætir við að ástandið sé algerlega óviðunandi. Þannig skori sum landanna fjölda stiga vegna góðs lagaumhverfis á sama tíma og hinsegin íbúar þeirra upplifi allt annan veruleika.
„Hlutfall hinsegin fólks sem lagar daglegt líf sitt að ótta við ofbeldi og ofsóknir á almannafæri er ótrúlega hátt - jafnvel í þeim löndum þar sem lagarammi og stefna eru hvað framsæknust. Niðurstöður könnunar Evrópustofnunar grundvallarmannréttinda (FRA) á högum 93 þúsund hinsegin borgara, sem verða kunngerðar þann 17. maí, styðja okkar niðurstöður. Þær sýna að 25% svarenda hafa upplifað ofbeldi á síðastliðnum fimm árum. Þetta bendir því miður til þess að mismunun sé lífsförunautur hinsegin fólks,” segir Calleja.
Ísland hafnar í 10. sæti á Regnbogakortinu með 56% stiga og hækkar um eitt sæti milli ára. Ísland kemur fast á hæla Danmerkur og er örlítið framar Ungverjalandi og Þýskalandi. Bretland trónir á toppnum með 77% stiga en í næstu níu sætum eru Belgía (67%), Noregur (66%), Svíþjóð, Spánn og Portúgal (öll með 65%), Frakkland (64%), Holland (60%), Danmörk (57%) og Ísland (56%).
Á hinum enda skalans sitja Rússar enn sem fastast í botnsætinu með 7%. Azerar og Armenar eru ekki langt þar fyrir ofan (8%). Þá koma Mónakóar og Moldóvar (10%), Úkraínumenn (12%) og Makedónar (13%). Þegar litið er yfir alla álfuna vekur athygli að rúmlega 75% ríkjanna (37 af 49) ná í raun ekki fimmtíu prósentum og hljóta þar með falleinkunn. Þar af eru 29 ríki undir 35%.
<span><span>Þótt staðan á Íslandi sé mun betri en í flestum ríkjanna 49 eru Íslendingar eftirbátar granna sinna á Norðurlöndum, að Finnum undanskildum. Margt er enn ógert þegar kemur að stefnu stjórnvalda og löggjöf varðandi hinsegin fólk, að sögn Samtakanna 78.</span></span> <span><span><br/></span></span> <span><span>„Hér má fyrst nefna að engin verndarákvæði er að finna í stjórnarskrá. Þá er engin lögbundin stofnun til að fara með málaflokkinn og engin landsaðgerðaáætlun til í málefnum hinsegin fólks. Eins vantar verndarákvæði í lög til handa transfólki og hvergi er í löggjöfinni minnst á intersexfólk. Íslensk stjórnvöld hafa heldur ekki sett fram neina stefnu til að takast á við hatursorðræðu og -ofbeldi gagnvart hinsegin fólki,“ segir í fréttatilkynningu frá Samtökunum 78 í dag. </span></span>