Það pólitíska kerfi sem við búum við á vesturlöndum er úrelt og mun breytast á næstu áratugum. Þetta segir Hrund Gunnsteinsdóttir, ráðgjafi, en hún hélt fyrirlestur á morgunfundi á vegum Háskólans á Bifröst í dag. Sagði hún að langtímahugsun í framkvæmdum og fjárfestingum væri vandamál og að pólitík almennt væri aðeins hugsuð út frá kjörtímabilum en ekki mannsævi. Þá ræddi hún um þróun menntamála á komandi árum, en morgunfundurinn var með yfirskriftina framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag.
Hrund byrjaði reyndar erindið á því að segja að ómögulegt væri að greina framtíðina þar sem við vitum ekkert um hana. Nefndi hún sem dæmi að stór hluti af skólafólki í dag ætti eftir að útskrifast og fara að vinna í störfum sem við þekkjum ekki í dag.
Þá talaði hún um nauðsyn þess að stuðla að nýsköpun í þjóðfélaginu, en benti á að mikil þörf fyrir að fylgjast með og vera stöðugt undir áreiti gæti dregið úr þeim hæfileika. Vitnaði hún til þess að þau taugaáhrif sem heilinn verður fyrir undir sífeldu áreiti minnki þann möguleika að vera skapandi. Samfélagshegðunin í dag gæti því allt eins dregið úr okkur sköpunarkraft í stað þess að vera drífandi. Hún tók þó fram að hún væri þarna að gera greinarmun á skapandi og lausnarmiðaðri hugsun, sem oft gæti virkað vel undir álagi.
Hrund kom einnig inn á þróun menntamála. Meðal annars hefði það verið almenn stefna í menntamálum að byggja á greinum sem ganga út á línulega hugsun, það er að segja að fara frá stað A til B. Aftur á móti væri heimurinn alls ekki þannig uppbyggður og sýndi hún greiningarmynd af samskiptum á netinu á einum sólarhring því til stuðnings þar sem frekar var hægt að greina óreiðu heldur en skipulag.
Þetta væri eitthvað sem menntafólk væri í sífellt meira mæli að horfa til í dag við uppbyggingu náms og í stað þess að hafa námið þannig uppbyggt að þurfa að læra eitthvað utanbókar, sem svo hugsanlega verður úrelt á 10 árum, þá þurfi að gera nemendur vel færa til að viðhalda sér í samfélaginu gegnum breytingarnar. „Betra að mennta fólk þannig að það sé flotholt með góðan áttavita til að komast áfram í lífinu,“ þrátt fyrir breytt samfélag, sagði hún.
Þá taldi Hrund að ólíklegt væri að sama pólitíska kerfi væri við líði hér á landi eftir hálfa til eina öld þar sem það væri nú þegar úrelt. Hún sagði það ekki ganga til lengdar að vera með kerfi þar sem aðeins væri horft til 4 ára, heldur væri mun skynsamlegra að líta til mun lengri tíma. Meðal annars hefðu frumbyggjaþjóðflokkar oft haft það fyrir venju að taka stórar ákvarðanir út frá því hvernig þeir sáu áhrif breytinga til næstu sjö kynslóða.
Hún taldi að grunnur að þessu kerfi væri að komast í gagnið með því að félagslegar og grænar greinar væru orðnar atvinnuskapandi og sjálfbærar. Bæði væri það með því að fjárfestar væru byrjaðir að horfa til lengri tíma og vegna eftirspurnar hjá almenningi og yfirvalda í vörur og þjónustu sem hafi þessi grunngildi. Nauðsynlegt væri þó að fjármagn væri mjög þolinmótt, þar sem fjárfestingar væru ekki hugsaðar til skamms tíma, heldur til langs tíma, jafnvel yfir heila mannsævi.
Sagði hún að enn sem komið er mætti jafnvel segja að þjóðfélög væru á gelgjunni og þau ættu enn eftir að þróast framar og komast upp úr þeirri umræðuhefð sem er nú og byggja á hugmyndum um skynsamlegar fjárfestingar til langs tíma.