Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið stjórnvöldum í Færeyjum einn mánuð til þess að bregðast með ásættanlegum hætti við kröfum sambandsins um að þau falli frá einhliða kvótaúthlutun sinni í norsk-íslenskri síld. Þetta kemur fram á fréttavefnum Undercurrentnews.com.
Verði ekki brugðist við innan þess tíma hyggst framkvæmdastjórnin óska eftir því við ríki Evrópusambandsins að Færeyingar verði beittir refsiaðgerðum. Þær aðgerðir kunna að fela það í sér að færeyskum skipum verði meinað að landa síld í höfnum Evrópusambandsins og meðafla og að settar verði skorður við aðgengi þeirra að höfnum sambandsins nema vegna neyðartilfella að því er segir í bréfi sem framkvæmdastjórnin hefur sent stjórnvöldum í Færeyjum.
Slíkar aðgerðir kunna einnig samkvæmt bréfi framkvæmdastjórnarinnar að fela í sér aðrar takmarkanir sem væru til þess fallnar að tryggja að refsiaðgerðirnar skiluðu tilætluðum árangri. Þannig gætu þær þýtt að aðilum innan Evrópusambandsins væri bannað að festa kaup á fiskiskipi sem skráð væri í Færeyjum eða að skrá skip frá sambandinu í Færeyjum.
Einnig er hugsanlegt að ríkjum Evrópusambandsins verði bannað að selja tækjabúnað til Færeyja eða birgðir sem nýttar væru til síldveiða eða að lokað yrði á að einstök ríki innan sambandsins gætu samið um fiskveiðar í færeyskri lögsögu. Eins og fram kom í Morgunblaðinu á fimmtudaginn ætla Færeyingar hins vegar ekki að hvika frá áformum sínum um einhliða kvótaúthlutun í norsk-íslenskri síld þrátt fyrir hótanir Evrópusambandsins.
Ennþá er í skoðun hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að grípa til hliðstæðra refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar en enn er verið að kanna lagalegan grundvöll slíkra aðgerða.