„Æskuárin mín einkenndust af ótta“

Biljana Bolaban flutti ræðu við útskriftarathöfn Borgarholtsskóla í dag.
Biljana Bolaban flutti ræðu við útskriftarathöfn Borgarholtsskóla í dag. Ingi Bogason

178 nemendur voru brautskráðir frá Borgarholtsskóla í gær. Við athöfnina flutti stúdentinn Biljana Boloban ræðu. Hún fæddist í Króatíu árið 1993 við upphaf Júgóslavíustríðsins og flutti hingað til lands ung að aldri ásamt foreldrum sínum og systur.

Ræðuna byggði Biljana á reynslu sinni sem barn í stríðshrjáðu landi og lagði hún meðal annars áherslu á það hversu margt Íslendingar hafa til að vera þakklátir fyrir, án þess þó að hugsa til þess daglega. 

Öruggt húsaskjól í fyrsta skipti

„Æskuár mín einkenndust af ótta og von um betra líf,“ sagði Biljana. „Það komu dagar þegar við áttum hvorki húsaskjól né peninga fyrir mat og vissum ekki hvað morgundagurinn bæri í skauti sér.“

Biljana kom hingað til lands þegar hún var níu ára gömul og þá segist hún í fyrsta skipti hafa fengið öruggt húsaskjól. 

„Þegar ég var yngri hefði mér aldrei dottið í hug að ég myndi fá tækifæri í lífinu til að mennta mig og hvað þá standa hérna fyrir framan ykkur og flytja þessa ræðu,“ sagði Biljana. 

Hún sagðist vera þakklát fyrir þann stuðning sem kennarar skólans hefðu sýnt sér og skólasystkinum sínum. Þeir hefðu verið hvetjandi og sagt henni að hún gæti gert allt sem hún vildi taka sér fyrir hendur.

„Við tökum venjulegum skóladegi sem sjálfsögðum hlut og áttum okkur ekki beint á því hversu margir eiga hlut í að halda skólanum gangandi fyrir okkur,“ sagði Biljana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert