„En Íslendingar eru miklu djarfari. Ef þeir vilja mála eldhúsið gult gera þeir það. Þú myndir ekki sjá slíkt í Danmörku eða í Finnlandi þar sem það er álitið skrýtið að gera hlutina öðruvísi,“ segir Sari Peltonen, verkefnisstjóri hjá Iceland Design Centre, um íslenska hönnun í samtali við Financial Times.
Bar Peltonen hönnun hér saman við hönnun í Finnlandi þar sem hún eigi að venjast síður frjálslegri notkun lita en hér.
Breska dagblaðið fjallaði ítarlega um íslenska hönnun á föstudaginn og segir í inngangi fréttarinnar að fáir hefðu getað gert sér í hugarlund hversu hratt Ísland myndi jafna sig eftir efnahagshrunið 2008 og að hönnun myndi eiga veigamikinn þátt í viðreisninni.
Fjallað er um Hönnunarmars og hvernig hönnun eigi sér ekki langa sögu á Íslandi.
Þannig hafi til dæmis orðið hönnun ekki komið inn í íslenskuna fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar.
Skortur á hefð kostur en ekki galli
Halla Helgadóttir, stjórnandi hjá Iceland Design Centre, er tekin tali og er haft eftir henni að efnahagshrunið 2008 hafi haft þau jákvæðu áhrif að hvetja fólk til að vera hugvitsamara.
Skrifar greinarhöfundur hjá Financial Times, Kate Watson-Smyth, að skortur á hefð á Íslandi hafi reynst koma sér vel fyrir nýja kynslóð íslenskra hönnuða.
Þeir geti leikið sér með hugmyndir og efni og séu hvorki bundnir af reglum eða takmörkunum sem hefðin setur.
Segir Sigga Heimis, hönnuður sem hefur búið á Ítalíu og á Norðurlöndum, að löng hefð fyrir hönnun í Danmörku og Svíþjóð geti sett hönnuðum þar vissar skorður.
Hér á Íslandi geti hver og einn þróað hugmyndir sínar á sinn hátt og tekið áhættu í litavali og öðru.
Hönnuðurinn Þórunn Árnadóttir er einnig tekin tali og segir hún að Íslendingar hafi þörf fyrir sterka þjóðarímynd. Það sé tilfinning þeirra að þeir séu eintakir, jafnvel pínulítið skrýtnir. Það ásamt ríkri sagnahefð séu áhrifavaldar í hönnun.
Greinarhöfundur rifjar í framhaldinu upp að frá og með áttunda áratug 19. aldar hafi bárujárn verið notað til að klæða þök og síðan útveggi íslenskra húsa.
Járnið sé málað í skrautlegum litum sem lífgi upp á borgarlandslagið í Reykjavík. Vegna veðurs sé fólk mikið innandyra og það eigi þátt í því hversu skrautleg íslensk heimili séu.
Vitnað er til þeirra ummæla Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á fundi með stjórnanda UNESCO í febrúar, að íslensk menning væri hornsteinn þeirrar efnahagslegu viðreisnar sem hér hefði orðið eftir efnahagshrunið. Önnur Evrópuríki ættu að horfa til þessa, enda yrði hvers iðnaður sem tengist menningu mikilvægur þáttur í efnahagslífi 21. aldarinnar.