Spyr um breytta stöðu á Íslandi

AFP

Hvernig bæri að haga samskiptum Íslands og Evrópusambandsins í framtíðinni ef Íslendinga hafna inngöngu í sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ef tekin verður ákvörðun af hálfu nýrrar ríkisstjórnar landsins um að hætta alfarið aðildarviðræðunum?

Þannig spyr austurríski Evrópuþingmaðurinn Angelika Werthmann í skriflegri fyrirspurn sem lögð var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 30. apríl síðastliðinn. Hún spyr ennfremur að því hvert mat framkvæmdastjórnarinnar sé á stöðu stjórnmála á Íslandi í ljósi þess að ný miðjuhægristjórn sé að taka við völdum og „þróun Evrópumála“ í landinu.

Werthmann vekur máls á því í fyrirspurninni að ekki sé víst að stefna nýrrar ríkisstjórnar verði jákvæð í garð Evrópusambandsins. Hún vitnar í nýja stöðuskýrslu sambandsins vegna viðræðnanna við Ísland þar sem segi að góður árangur hafi náðst í þeim. Hins vegar virðist vera lítill stuðningur á meðal almennings á Íslandi við það að ganga í Evrópusambandið.

Spurð að því hvort hún hafi fengið svar við fyrirspurn sinni segir Werthmann í samtali við mbl.is að það hafi ekki borist en framkvæmdastjórnin hafi allt að einn og hálfan mánuð til þess að svara slíkum fyrirspurnum. „Þannig að ég er hrædd um að við þurfum enn að bíða einhvern tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert