Uppsögn Láru Hönnu dregin til baka

Lára Hanna Einarsdóttir
Lára Hanna Einarsdóttir mbl.is/Valdís Thor

Uppsögn á verktakasamningi þýðandans Láru Hönnu Einarsdóttur við 365 miðla hefur verið dregin til baka, en henni var sagt upp hjá Stöð 2 með 20 daga fyrirvara eftir 25 ára starf þar. Lára Hanna hefur verið í krabbameinsmeðferð, en framkvæmdastjórn félagsins segir að sér hafi ekki verið kunnugt um veikindi hennar.

Í fréttatilkynningu frá 365 segir að þau „óvönduðu vinnubrögð sem áttu sér stað við uppsögn á verktakasamningi Láru Hönnu Einarsdóttur“ séu hörmuð. Félagið vill einnig benda á að framkvæmdarstjórn félagsins var ekki kunnugt um veikindi Láru Hönnu.

Í tilkynningunni segir að breytingar hafi verið gerðar hjá fyrirtækinu, sem m.a. hafa falið í sér að fastráða þýðendur og fækka verktökum. „Uppsagnir verktaka hafa þ.a.l. verið liður í endurskipulagningu fyrirtækisins. Stöður þýðenda voru einnig auglýstar til umsóknar,“ segir í tilkynningunni og mun 365 nú fara fyrir yfir verkferla á þessum uppsögnum.

Uppsögnin hefur tafarlaust verið dregin til baka.   

Lára Hanna tjáði sig um málið í pistli á Eyjunni í gær þar sem hún sagði m.a.: „Ég lýsi eftir orði yfir það, að segja upp verksamningi við 57 ára gamlan starfsmann eftir 25 ára starf með 20 daga fyrirvara – með einum tölvupósti. Mér finnst siðleysi ekki ná yfir það.“

Frétt mbl.is: Sagt upp eftir 25 ára starf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert