Forsetinn hreifst af Sigmundi

Quest ræðir við Ólaf Ragnar.
Quest ræðir við Ólaf Ragnar. Mynd/London Business School

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fól Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að mynda ríkisstjórn vegna athyglisverðra hugmynda hans um baráttu gegn vogunarsjóðum í þágu heimilanna. Þetta upplýsti forsetinn á málþingi í Lundúnum í dag.

Forsetinn sat fyrir svörum á fjölsóttu málþingi bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN og London Business School, eins helsta viðskiptaháskóla heims, í Lundúnum.

„Ég valdi leiðtoga Framsóknarflokksins en hann lagði í kosningabaráttunni sinni mesta áherslu á að takast á við húsnæðisskuldir heimilanna og beita þá vogunarsjóði, eða hvað sem þú vilt kalla þá, þrýstingi svo þeir næðu ekki fram þeim gríðarlega hagnaði sem þeir hugðust ná fram á íslensku bankakreppunni. Það var mjög athyglisverður lýðræðislegur sigur og þess vegna veitti ég honum umboð til að leiða næstu ríkisstjórn og ég held að honum sé að takast það,“ sagði Ólafur Ragnar í lauslegri þýðingu í samtali við Richard Quest, blaðamann CNN.

Ólafur Ragnar skaut föstum skotum að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Verkamannaflokksins 2007-2010.

Brown hefði í Icesave-deilunni beitt Íslendinga „margbrotnustu fjárkúgunarleiðinni sem hann hefði orðið vitni að á hæstu valdaþrepum á síðari tímum“ [e. most elaborate high level financial blackmail I have ever witnessed in recent history] “ í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Fór þá kliður um salinn. 

Bretar hótuðu að stöðva samstarf Íslands og AGS

Rifjaði Ólafur Ragnar upp að Bretar hefðu stillt málinu þannig upp að ef íslenskur almenningur borgaði ekki Icesave-skuldina myndi samstarfið við AGS vera stöðvað. Sú afstaða Browns hefði verið efnahagslega og lýðræðislega röng og jafnframt lagalega röng, líkt og dómur EFTA-dómstólsins í janúar vitnaði um. Það hefði engu að síður verið afstaða sem allar ríkisstjórnir í ESB studdu á þeim tíma.

Evrópskir stjórnmálamenn ættu að velta þessu fyrir sér í baráttunni við evrukreppuna.

Forsetinn sagðist hafa verið meira en reiður í garð Browns og rifjaði upp beitingu bresku ríkisstjórnarinnar á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum. Það hefði valdið íslenskum fyrirtækjum miklum skaða.

AGS lærði meira af Íslandi en öfugt

Forsetinn fór yfir vítt svið í umræðu um efnahagshrunið á Íslandi og sagði meðal annars að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, AGS, hefði líklega lært meira af samstarfinu við Íslendinga en öfugt, og vísaði þar til áherslu fráfarandi ríkisstjórnar á að vernda kjör þeirra sem lakast standa.

Aðspurður um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að láta Kaupþing, Landsbankann og Glitni fara í þrot haustið 2008 minnti Ólafur Ragnar á að um 80% af starfsemi bankanna hefði verið erlendis.

Írar hefðu átt að gera eins og Íslendingar

Sú ákvörðun hefði gengið gegn almennum viðhorfum á þeim tíma. Írar hefðu farið gagnstæða leið. Spurð Quest þá hvort Írar hefðu í þessu efni átt að gera eins og Íslendingar.

„Ég satt að segja skil ekki hvers vegna bankar eru álitnir hinar heilögu kirkjur [e. holy churches] nútíma hagkerfis og hvers vegna einkabankar geta ekki farið í þrot, líkt og venjuleg fyrirtæki,“ sagði Ólafur Ragnar. 

„En við meðhöndlum þá eins og þeir séu á einhvern hátt fyrirbæri sem njóti forréttinda í hagkerfum okkar.“

Quest spurði hvort að það myndi ekki leiða til dómínóáhrifa í evrópsku bankakerfi ef gjaldþrotaleið Íslendinga yrði farin þar. „Sú er kenningin en hún hefur ekki verið sönnuð,“ sagði Ólafur Ragnar þá. 

Klöppuðu þá nokkrir í salnum.

Ólafur Ragnar rifjaði því næst upp að Bretar og Hollendingar hefðu notið stuðnings ESB-ríkjanna í Icesave-deilunni. Þar hefði þeim rökum verið teflt fram að ef íslenska ríkið tæki ekki á sig skuldbindingar einkabanka myndi bankakerfið allt hrynja.

„Ég fellst ekki á þau rök,“ sagði forsetinn sem taldi að þótt Ísland væri lítið ríki væri það engu að síður með nútímalegt hagkerfi sem væri sambærilegt við evrópsk hagkerfi. Evrópa gæti því horft til reynslu Íslendinga.

Samræður þeirra Ólafs Ragnars má sjá sér en til þess þarf að gefa upp netfang og nafn. Smella þarf á „webcast“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka