Leiðtogar ESB ættu að leggja þá hugsun til hliðar að horfa á evrukreppuna útfrá væntu hlutverki ESB á alþjóðasviðinu næstu áratugi heldur nálgast kreppuna út frá forsendum fólksins. Þetta er skoðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem segir stefnusmiði evrusvæðisins í misheppnuðu „efnahagslegu rúllettuspili“.
Forsetinn lét þessi ummæli falla á málþingi á vegum London Business School sem sagt hefur verið frá á mbl.is.
Tilefnið var spurning úr sal þar sem einn fundargesta spurði Ólaf Ragnar hvað hann myndi gera til að ráða niðurlögum evrukreppunnar ef hann væri forseti ESB með sambærileg völd og hann hefði á Íslandi. Tók spyrjandinn fram að hann teldi völd forseta Íslands innan landsins meiri en völd José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, innan sambandsins.
Svaraði Ólafur Ragnar því þá til að hann teldi að leiðtogar ESB hefðu gert þau mistök að horfa á evrukreppuna í samhengi þeirra valda og áhrifa sem sambandinu væri ætlað að hafa á „svonefndu alþjóðasviði“ næstu áratugi.
Þetta væri í grundvallaratriðum röng nálgun. Takast þyrfti á við evrukreppuna út frá forsendum fólksins. Hugmyndin um Evrópu sé „hugmyndafræðileg spennitreyja“.
„Mín afstaða er sú að hugmyndin um Evrópu sé helsta hugmyndafræðilega spennitreyjan, að fólk tali eins og það sé til fyrirbæri og vettvangur sem nefnist Evrópa sem þurfi að styrkja,“ sagði forsetinn og vísaði til þeirra sjónarmiða að auka þurfi samruna ESB-ríkjanna til að takast á við evrukreppuna.
Þá benti Ólafur Ragnar á að staða efnahagsmála í Norður-Evrópu væri betri en í suðurhluta álfunnar og að í norðrinu stæðu mörg ríkjanna utan evrusvæðisins.
„Ég held að það fyrsta sem ég myndi líklega gera er að koma Evrópu út úr þessari hugmyndafræðilegu spennitreyju og fara niður á planið þar sem fólkið lifir og háir lífsbaráttu sína og berst fyrir réttinum til að ákveða framtið sína. Af því að megin arfleið Evrópu til heimsins er ekki fjármálamarkaðir. Megin arfleið Evrópu, sem hún gaf heiminum, er lýðræði, lög og regla og mannréttindi,“ sagði forsetinn í lauslegri þýðingu.
„Af hverju ætti Evrópa, þegar hún stendur andspænis grundvallarvanda sem varðar hana sjálfa, ekki fylgja leið síns mikilvægasta framlags til heimsins heldur reyna að spila fjárhagslega rúllettu vegna valdahlutverks síns á svonefndu alþjóðasviði á næstu áratugum, nokkuð sem er greinilega ekki að skila neinum árangri?“ spurði forsetinn og vísaði til evrusvæðisins.
Klöppðu þá margir í salnum.
Sigur ESB-andstæðinga
Richard Quest, blaðamaður CNN og stjórnandi þessa hluta málþingsins, spurði forsetann hvort útkoma alþingiskosninganna á Íslandi væri til vitnis um að meirihluti þjóðarinnar leggist gegn aðild.
Svaraði forsetinn þá játandi og benti á að Norðmenn hefðu tvisvar hafnað aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu og Grænlendingar sagt skilið við sambandið.
Þá benti Ólafur Ragnar á að sá flokkur sem hefði gert ESB-aðild að sínu helsta stefnumáli í kosningunum hefði uppskorið mesta tap nokkurs stjórnarflokks í V-Evrópu síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Vísaði hann þar til Samfylkingarinnar.
Treysti matsfyrirtækjunum
Forsetinn var einnig spurður hvað hann teldi að mætti betur fara í regluverki um fjármálamarkaði í Evrópu.
Rifjaði Ólafur Ragnar þá upp að hann hefði heyrt viðvörunarraddir í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi.
Við mat á þeim aðvörunum hefði hann horft til umsagna lánshæfisfyrirtækjanna á matshæfi Íslands.
Þá hefði hann horft til þess að erlendir stórbankar vildu auka viðskiptin við íslensku bankanna. Saman hafi þetta villt honum sýn.
Taldi forsetinn að úr því að þetta gat gerst á Íslandi sé tilefni til að spyrja hvort matsfyrirtækin hafi rétt fyrir sér í dag.
Hikandi við að ráðleggja Kýpverjum
Quest spurði forsetann einnig hvort hann hefði ráð til handa Kýpverjum sem eru sem kunnugt er í vanda staddir vegna efnahagsmálanna.
Sagðist forsetinn þá vera hikandi við að gefa öðrum þjóðum ráð í ljósi margra slæmra ráðlegginga sem erlendir aðilar hefðu gefið Íslendingum.
Hlógu þá margir í salnum.
Hann gæti aðeins sagt heiðarlega frá reynslu Íslendinga af efnahagshruni. Því næst vék forsetinn að því að framkvæmdastjórn ESB, Seðlabanki Evrópu og AGS hefðu gripið til aðgerða á Kýpur sem hefðu fyrir nokkrum árum „verið algert tabú“ þegar Ísland var annars vegar.
„Þeir hafa í raun tekið 180 gráða beygju í ráðlegginum sínum,“ sagði forsetinn.
Stofnanir ESB fari í sjálfsskoðun
„Það sem skortir er heiðarleg fræðileg, stjórnmálaleg og efnahagsleg skoðun innan evrópskra stofnana á þeim grundvallarmistökum sem hafa verið gerð á síðustu fjórum til fimm árum,“ sagði Ólafur Ragnar.
Taldi forsetinn að hjarðhegðun stjórnmálastéttarinnar í Evrópu og trú á að fylgja bæri ríkjandi viðhorfum hefði leitt hana í „hugmyndafræðilegt fangelsi“. Ávallt væri vísað til hlutverks ESB í Evrópu í framtíðinni þegar talið bærist að því sem hefði farið úrskeiðis á evrusvæðinu.