Misheppnað rúllettuspil á evrusvæðinu

Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum. Sigurgeir Sigurðsson

Leiðtog­ar ESB ættu að leggja þá hugs­un til hliðar að horfa á evrukrepp­una út­frá væntu hlut­verki ESB á alþjóðasviðinu næstu ára­tugi held­ur nálg­ast krepp­una út frá for­send­um fólks­ins. Þetta er skoðun Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, for­seta Íslands, sem seg­ir stefnu­smiði evru­svæðis­ins í mis­heppnuðu „efna­hags­legu rúll­ettu­spili“.

For­set­inn lét þessi um­mæli falla á málþingi á veg­um London Bus­iness School sem sagt hef­ur verið frá á mbl.is.

Til­efnið var spurn­ing úr sal þar sem einn fund­ar­gesta spurði Ólaf Ragn­ar hvað hann myndi gera til að ráða niður­lög­um evrukrepp­unn­ar ef hann væri for­seti ESB með sam­bæri­leg völd og hann hefði á Íslandi. Tók spyrj­and­inn fram að hann teldi völd for­seta Íslands inn­an lands­ins meiri en völd José Manu­el Barroso, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, inn­an sam­bands­ins.

Svaraði Ólaf­ur Ragn­ar því þá til að hann teldi að leiðtog­ar ESB hefðu gert þau mis­tök að horfa á evrukrepp­una í sam­hengi þeirra valda og áhrifa sem sam­band­inu væri ætlað að hafa á „svo­nefndu alþjóðasviði“ næstu ára­tugi.

Þetta væri í grund­vall­ar­atriðum röng nálg­un. Tak­ast þyrfti á við evrukrepp­una út frá for­send­um fólks­ins. Hug­mynd­in um Evr­ópu sé „hug­mynda­fræðileg spennitreyja“. 

„Mín afstaða er sú að hug­mynd­in um Evr­ópu sé helsta hug­mynda­fræðilega spennitreyj­an, að fólk tali eins og það sé til fyr­ir­bæri og vett­vang­ur sem nefn­ist Evr­ópa sem þurfi að styrkja,“ sagði for­set­inn og vísaði til þeirra sjón­ar­miða að auka þurfi samruna ESB-ríkj­anna til að tak­ast á við evrukrepp­una.

Þá benti Ólaf­ur Ragn­ar á að staða efna­hags­mála í Norður-Evr­ópu væri betri en í suður­hluta álf­unn­ar og að í norðrinu stæðu mörg ríkj­anna utan evru­svæðis­ins.

„Ég held að það fyrsta sem ég myndi lík­lega gera er að koma Evr­ópu út úr þess­ari hug­mynda­fræðilegu spennitreyju og fara niður á planið þar sem fólkið lif­ir og háir lífs­bar­áttu sína og berst fyr­ir rétt­in­um til að ákveða framtið sína. Af því að meg­in arf­leið Evr­ópu til heims­ins er ekki fjár­mála­markaðir. Meg­in arf­leið Evr­ópu, sem hún gaf heim­in­um, er lýðræði, lög og regla og mann­rétt­indi,“ sagði for­set­inn í laus­legri þýðingu.

„Af hverju ætti Evr­ópa, þegar hún stend­ur and­spæn­is grund­vall­ar­vanda sem varðar hana sjálfa, ekki fylgja leið síns mik­il­væg­asta fram­lags til heims­ins held­ur reyna að spila fjár­hags­lega rúll­ettu vegna valda­hlut­verks síns á svo­nefndu alþjóðasviði á næstu ára­tug­um, nokkuð sem er greini­lega ekki að skila nein­um ár­angri?“ spurði for­set­inn og vísaði til evru­svæðis­ins.

Klöppðu þá marg­ir í saln­um.

Sig­ur ESB-and­stæðinga

Rich­ard Qu­est, blaðamaður CNN og stjórn­andi þessa hluta málþings­ins, spurði for­set­ann hvort út­koma alþing­is­kosn­ing­anna á Íslandi væri til vitn­is um að meiri­hluti þjóðar­inn­ar legg­ist gegn aðild.

Svaraði for­set­inn þá ját­andi og benti á að Norðmenn hefðu tvisvar hafnað aðild að ESB í þjóðar­at­kvæðagreiðslu og Græn­lend­ing­ar sagt skilið við sam­bandið.

Þá benti Ólaf­ur Ragn­ar á að sá flokk­ur sem hefði gert ESB-aðild að sínu helsta stefnu­máli í kosn­ing­un­um hefði upp­skorið mesta tap nokk­urs stjórn­ar­flokks í V-Evr­ópu síðan í síðari heims­styrj­öld­inni. Vísaði hann þar til Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Treysti mats­fyr­ir­tækj­un­um

For­set­inn var einnig spurður hvað hann teldi að mætti bet­ur fara í reglu­verki um fjár­mála­markaði í Evr­ópu.

Rifjaði Ólaf­ur Ragn­ar þá upp að hann hefði heyrt viðvör­unarradd­ir í aðdrag­anda banka­hruns­ins á Íslandi.

Við mat á þeim aðvör­un­um hefði hann horft til um­sagna láns­hæfis­fyr­ir­tækj­anna á mats­hæfi Íslands.

Þá hefði hann horft til þess að er­lend­ir stór­bank­ar vildu auka viðskipt­in við ís­lensku bank­anna. Sam­an hafi þetta villt hon­um sýn.

Taldi for­set­inn að úr því að þetta gat gerst á Íslandi sé til­efni til að spyrja hvort mats­fyr­ir­tæk­in hafi rétt fyr­ir sér í dag.

Hik­andi við að ráðleggja Kýp­verj­um

Qu­est spurði for­set­ann einnig hvort hann hefði ráð til handa Kýp­verj­um sem eru sem kunn­ugt er í vanda stadd­ir vegna efna­hags­mál­anna.

Sagðist for­set­inn þá vera hik­andi við að gefa öðrum þjóðum ráð í ljósi margra slæmra ráðlegg­inga sem er­lend­ir aðilar hefðu gefið Íslend­ing­um.

Hlógu þá marg­ir í saln­um.

Hann gæti aðeins sagt heiðarlega frá reynslu Íslend­inga af efna­hags­hruni. Því næst vék for­set­inn að því að fram­kvæmda­stjórn ESB, Seðlabanki Evr­ópu og AGS hefðu gripið til aðgerða á Kýp­ur sem hefðu fyr­ir nokkr­um árum „verið al­gert tabú“ þegar Ísland var ann­ars veg­ar.

„Þeir hafa í raun tekið 180 gráða beygju í ráðlegg­in­um sín­um,“ sagði for­set­inn.

Stofn­an­ir ESB fari í sjálfs­skoðun

„Það sem skort­ir er heiðarleg fræðileg, stjórn­mála­leg og efna­hags­leg skoðun inn­an evr­ópskra stofn­ana á þeim grund­vall­armis­tök­um sem hafa verið gerð á síðustu fjór­um til fimm árum,“ sagði Ólaf­ur Ragn­ar.

Taldi for­set­inn að hjarðhegðun stjórn­mála­stétt­ar­inn­ar í Evr­ópu og trú á að fylgja bæri ríkj­andi viðhorf­um hefði leitt hana í „hug­mynda­fræðilegt fang­elsi“. Ávallt væri vísað til hlut­verks ESB í Evr­ópu í framtíðinni þegar talið bær­ist að því sem hefði farið úr­skeiðis á evru­svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka