„Þetta er mjög alvarleg breyting fyrir hvalveiðifyrirtækin sem eru að róa héðan frá höfuðborgarsvæðinu, þau sem eru í hrefnuveiðunum,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vegna þeirrar ákvörðunar Steingríms J. Sigfússonar, fráfarandi atvinnuvegaráðherra, að gefa úr reglugerð í dag um stækkað griðasvæði hvala í Faxaflóa en reglugerðin tekur gildi á miðnætti.
Með fyrra griðasvæðinu sem hafi verið markað hafi verið lokað fjölmörgum veiðisvæðum sem hvalveiðimenn hefðu haft aðgang að. Með ákvörðun sinni nú hafi Steingrímur lokað endanlega á aðgengi þeirra að þeim veiðisvæðum í Faxaflóa þar sem yfir 80% af hrefnu hafi verið veidd síðan veiðar í atvinnuskyni hafi hafist hér á landi að nýju.
„Þessi reglugerð er síðan sett með engum fyrirvara og á að taka gildi á miðnætti. Þetta breytir öllum rekstrarforsendum þessara útgerða sem hafa verið að undirbúa veiðarnar að undanförnu. Nú þurfa þeir að fara í lengri túra, þeir þurfa að ráða fleiri réttindamenn, þetta þýðir meiri tíma og kostnað til dæmis í eldsneyti. Þetta eru auðvitað forkastanleg vinnubrögð að menn skuli gefa svona út þegar allt er komið af stað,“ segir hann.