„Þetta verður eina ríkisstjórnin á lýðveldistímanum þar sem enginn hefur áður gegnt ráðherraembætti,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, í samtali við mbl.is og vísar þar til nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem tekur formlega við völdum á morgun. Samtals sitja níu ráðherrar í nýrri ríkisstjórn og þar af fimm frá Sjálfstæðisflokknum og fjórir frá Framsóknarflokknum.
Einungis tveir þingmenn beggja flokka hafa áður gegnt ráðherraembættum. Þeir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem var sjávarútvegsráðherra 2005-2007 og einnig landbúnaðarráðherra 2007 og síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2008-2009, og Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2007-2008 og heilbrigðisráðherra 2008-2009.
Hvorugur þeirra verður í nýrri ríkisstjórn en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hyggst hins vegar tilnefna Einar í embætti forseta Alþingis.