Gunnar Dofri Ólafsson -
„Þetta stóra verkefni leggst bara mjög vel í mig,“ segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. Eygló sagði félags- og húsnæðismálin efst á baugi í hennar ráðuneyti. „Þetta eru gífurlega stór verkefni sem við ætlum að leggja mikla áherslu á á þessu kjörtímabili. Markmiðin og leiðir að þeim liggja fyrir í stjórnarsáttmálanum, auk þess sem við munum taka mið af stefnu Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson er sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra. „Ég hlakka til að takast á við samþættingu þessara verkefna sem þetta ráðuneyti verður. Menn hafa hingað til litið á þessi verkefni sem ólík, en í okkar augum er meira sem sameinar þau en sundrar,“ segir Sigurður Ingi. Hann segist ekki búast við árekstrum við samþættingu verkefna ráðuneytanna, en ráðuneytin munu áfram starfa sjálfstætt. „Það verður klárlega það verkefni sem ég þarf að leggjast yfir.“
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verða það fyrsta sem hann muni taka sér fyrir hendur. „Stjórnarsáttmálinn setur mér auðvitað fyrir að takast á við það verkefni. Síðan mun ég einbeita mér að norðurslóðamálum. Fyrsta eiginlega verkefnið verður samt alltaf að koma þarna inn og kynnast starfsfólkinu og því starfi sem er í gangi í ráðuneytinu núna. Ég hlakka bara til þess.“
Gunnar Bragi vildi ekkert segja um hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu færi fram. „Það er mikil vinna framundan við að sjá til þess að það hlé sem sett var verði virt. Síðan þarf að endurmeta stöðuna og kalla eftir upplýsingum. Það væri óábyrgt af mér að fara lýsa yfir einhverjum dagsetningum um þetta,“ segir Gunnar Bragi.