Heimilin finna breytingar í sumar

„Ég veit nú ekki hvort það er alveg nógu þjált nafn, en það má svo sem alveg nota það,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verðandi forsætisráðherra aðspurður hvort þeir Bjarni Benediktsson vonist til þess að ríkisstjórn þeirra verði kölluð Laugarvatnsstjórnin.

„Við skulum vonandi bara ná þeim árangri að þetta verði ríkisstjórn heimilanna, fjölskyldustjórnin,“ bætti Sigmundur Davíð við.

Leiðréttingasjóður stofnaður ef þörf krefur

Hann er ánægður með þá sátt sem verðandi ríkisstjórnarflokkar náðu um skuldamál heimilanna. Stefna Framsóknar muni komast til framkvæmda „Sem betur fer var hægt að ná saman um leið sem bæði uppfyllir það sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðiflokkurinn boðuðu í kosningabaráttunni varðandi heimilin. Hvað okkur varðar er auðvitað þessi almenna leiðrétting grundavallaratriði.“

Ríkisstjórnin gerir að sögn Sigmunds ráð fyrir að nýta það fjármagn sem svigrúm skapast fyrir með uppgjöri við þrotabú bankanna. „En það má segja að við bætum því við að ef það allt tekur óhóflegan tíma þá sé hægt að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til þess að ná þessu markmiði hraðar.“

Hvenær getum við búist við að sjá árangur af þessu starfi? Hvenær verða skuldir heimilanna leiðréttar?

„Heimilin munu væntanlega strax finna mun vegna hinna ýmsu breytinga sem verða innleiddar og einhverjar þeirra koma til framkvæmda strax á sumarþinginu. En eðli málsins samkvæmt, eins og var ítarlega fjallað um í kosningabaráttunni, þá tekur skuldaleiðréttingin sjálf, hin almenna leiðrétting, einhvern tíma. Það er rétt að skoða hversu hratt þetta gengur fyrir sig varðandi uppgjör bankanna en ég ítreka það þá að ef það lítur út fyrir að það taki óhóflega langan tíma þá hafa menn aðrar leiðir.“

Hvers vegna veljið þið að kynna stjórnarsáttmálann á Laugarvatni, er einhver andi sem hér svífur yfir vötnum sem þið viljið að verði upplegg þessarar ríkisstjórnar?

„Já það má alveg segja það, ef það á að tala um einhvern anda eða yfirbragð þessa stjórnarsáttmála þá má segja að hann sé á margan hátt í ætt við hugsjónir og markmið ungmennafélagshreyfingarinnar. Sú hreyfing á auðvitað sterkar rætur hér, en hér er líka menntun, æskulýðsstarf, ferðaþjónusta landbúnaður og auðlindir í iðrum jarðar, mjög margt sem er hægt að tengja við þennan stjórnarsáttmála. Þannig að þetta hefur táknræna þýðingu á margan hátt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins við Héraðsskólann á Laugarvatni í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins við Héraðsskólann á Laugarvatni í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert