Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins telja skynsamlegt að samið verði til skamms tíma við gerð næstu kjarasamninga vegna óvissu sem uppi er í efnahagsmálum.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok nóvember og hafa forystumenn SA sett fram þá hugmynd að skammtímasamningar gætu t.d. gilt til áramóta 2014-15. Tíminn fram að því verði notaður til að leggja grunn að samkomulagi til lengri tíma.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, mikla óvissu um gengisstöðugleika á næstu árum. Mikilvægast sé að koma á stöðugleika í gengismálum og að ríkisfjármálin stuðli að því að náð verði og viðhaldið efnahagslegum stöðugleika.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að við þær flóknu aðstæður sem uppi eru geti verið rétt að byrja á því að ganga frá einhvers konar skammtímasamningi á meðan menn átta sig á hver þróunin verður og hvernig ný ríkisstjórn ætlar að taka á verkefnunum, áður en menn skuldbinda sig til lengri tíma.