Sjálfstæðiflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR. Flokkurinn mælist með 28,4% fylgi og bætir aðeins við sig fylgi frá kosningunum í síðasta mánuði þegar hann fékk 26,7%. Framsóknarflokkurinn er næststærsti flokkurinn og mælist nú með 19,9% en hlaut 24,4% í kosningunum.
Fylgi Samfylkingarinnar er 11,7% samkvæmt könnuninni en flokkurinn fékk 12,9% fylgi í þingkosningunum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist með 12,1% en hlaut 10,9% í kosningunum. Björt framtíð er með 11,3% en fékk 8,2% í kosningunum. Píratar eru með 6,5% en hlutu 5,1% upp úr kjörkössunum.
Þá mælist Dögun með 3,8% fylgi, Lýðræðisvaktin með 1,6% fylgi og Hægri grænir með 1,4% fylgi. Flokkur heimilanna er með 1,2% fylgi, Regnboginn með 0,8% fylgi, Sturla Jónsson með 0,5% fylgi, Landsbyggðarflokkurinn með 0,5% og Alþýðufylkingin með 0,1% fylgi. Stuðningur við fráfarandi ríkisstjórnina mælist nú 31,5% en mældist 32,6% í síðustu könnun.
Skoðanakönnunin var gerð dagana 14. til 17. maí og var heildarfjöldi svarenda 1.011 einstaklingar, 18 ára og eldri.