Pönnukökur, vöfflur og soðbrauð. Þetta voru veitingarnar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson snæddu á meðan nýr stjórnarsáttmáli mótaðist. Þegar hann var svo kynntur í dag í gamla Héraðsskólanum á Laugarvatni var boðið upp á hverarúgbrauð sem bakað var í jörðu í nótt og silung.
Miðað við þessar þjóðlegu veitingar þarf því kannski ekki að koma á óvart að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er sérstaklega vikið að íslenskri þjóðmenningu.
Saga, minjar og tunga
„Íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu,“ segir í stefnuyfirlýsingunni.
Ekki er getið nánar með hvaða hætti stefnt er að frekari skráningu Íslandssögunnar eða hvort þörf sé á skráningu ákveðinna hluta Íslandssögunnar umfram aðra á kjörtímabilinu.
„Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan,“ segir jafnframt í stefnuyfirlýsingunni.
Í mennta- og menningarkafla stjórnarsáttmálans segir enn fremur að standa þurfi vörð um íslenska tungu, efla rannsóknir á þróun tungumálsins og styrkja stöðu íslensks táknmáls.
Sammála um þjóðkirkjuna en greinir á um Rúv
En hvað telst til íslenskrar þjóðmenningar? Afstaða verðandi stjórnarflokka til þess kemur að nokkru leyti fram í landsfundarsamþykktum þeirra. Þar eru flokkarnir raunar nokkuð samhljóma um helstu atriði.
Bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn geta t.d. þjóðkirkjunnar í þessu samhengi. Í ályktunum flokksþings Framsóknarflokksins 2013 segir að styðja verði við starf þjóðkirkjunnar um land allt „enda er íslensk þjóðmenning sprottin úr kristnum jarðvegi“. Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir að flokkurinn telji að „kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr“ og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi.
Báðir flokkar geta þess einnig í stefnu sinni að mikilvægt sé að hvetja innflytjendur til að læra íslensku og kynna sér sögu þjóðarinnar. Flokkarnir eru sammála um að hlúa að lista- og menningarlífi þjóðarinnar og standa vörð um menningarstofnanir. „Mikilvægt er að þjóðin sé ávallt vel upplýst um sögu sína og menningararf, segir í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Meðal ríkisstjórnarflokkanna virðist þó ekki vera einhugur um miðlun þessarar menningar, alltént ekki hvað Rúv varðar. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt ályktun um að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. lagt niður í núverandi mynd „ef ástæða þykir til“.
Framsóknarflokkurinn samþykkti hins vegar ályktun þar sem segir að Ríkisútvarpið gegni mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. „Á RÚV hvílir rík, lýðræðis- og samfélagsleg skylda og því ber að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður því að renna óskipt til Rúv.“
Þeir Bjarni og Sigmundur geta eflaust gert út um þennan ágreining yfir grjónagraut og lifrarpylsu við tækifæri.