Breski Evrópuþingmaðurinn Marina Yannakoudakis spyr á Twitter-síðu sinni í dag hvort framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eigi eftir að heimta til baka svonefnda IPA-styrki sem það veitti Íslandi til þess að undirbúa landið fyrir inngöngu í sambandið og annað sem ætlað var að gera inngöngu meira aðlaðandi í augum Íslendinga.
Ummælin koma í kjölfar þeirrar ákvörðunar nýrrar ríkisstjórnar að stöðva viðræðurnar um inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt stjórnarsáttmála og hefja þær ekki að nýju nema að undangengnu þjóðaratkvæði. Yannakoudakis situr á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn en hún gagnrýndi Íslendinga áður harðlega fyrir að vilja ekki greiða fyrir Icesave-innistæðurnar í Bretlandi og Hollandi.
Greiðslur til Íslands í formi IPA-styrkja voru í vetur talsvert til umfjöllunar í Bretlandi en ýmsum stjórnmálamönnum þar í landi þótti út í hött að Evrópusambandið væri að greiða slíka styrki til Íslands, meðal annars til þess að byggja upp ferðaþjónustu hér á landi, á sama tíma og Íslendingar neituðu að greiða fyrir Icesave-innistæðurnar.
Þess má geta að samkvæmt samningi íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið um IPA-styrkina er gert ráð fyrir að hægt sé að segja honum upp einhliða af öðrum hvorum aðila. Verði það gert haldi þau verkefni sem þegar séu í gangi áfram þrátt fyrir mögulega uppsögn samningsins.