Verðbólguskot verði leiðrétt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson kynna innihald stjórnarsáttmálans á …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson kynna innihald stjórnarsáttmálans á Laugarvatni. mbl.is/Eggert

Bættur hagur heimilanna og efling atvinnulífs verður leiðarljós nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Fram kemur í stefnuyfirlýsingu flokkanna að grunnviðmiðið, varðandi aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, sé að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 „en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum,“ segir í sáttmálanum.

Ríkisstjórnin segir að heimili landsins séu undirstaða og drifkraftur þjóðarinnar. Hún hyggst með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem sé til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins.

„Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða,“ segir í stefnuyfirlýsingunni sem telur 16 blaðsíður, en hana er að finna í viðhengi.

Hér á eftir verður stiklað á stóru.

Til greina að stofna leiðréttingarsjóð

„Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum,“ segir ennfremur.

Einnig er nefnt að æskilegt sé að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð miðað við það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu.

Krónan gjaldmiðill Íslendinga

Í stefnuyfirlýsingunni kemur skýrt fram að krónan verði gjaldmiðill Íslendinga um fyrirsjáanlega framtíð. „Renna þarf styrkari stoðum undir peningastefnuna með traustri hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum,“ segir í yfirlýsingunni varðandi efnahagsmál.

Þá á að fara yfir áætlun í ríkisfjármálum og lækka skuldir ríkissjóðs markvisst sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Bæta á vinnubrögð í fjárlagagerð, horft verði til lengri tíma varðandi stöðu ríkissjóðs og tryggja skynsamlega nýtingu á fjármagni.

Ný ríkisstjórn segir að afnám fjármagnshafta sé eitt mikilvægasta verkefni hennar.

Varðandi skattaumhverfið, þá á að gera úttekt á því og leggja fram tillögur til að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjuteningar og draga úr undanskotum.

Stofna ríkisolíufélag

Hvað varðar farðaþjónustu, segir í stefnuyfirlýsingunni að fallið verði frá áformum fyrri ríkisstjórnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna.

Ríkisstjórnin hyggst yfirfara fiskveiðistjórnunarkerfið og þá verða lög um veiðigjald endurskoðuð. „Almennt gjald skal endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja. Ríkisstjórnin mun í samráði við þá sem starfa í sjávarútvegi kanna kosti þess.“

„Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni. Í því skyni mun hún ráðast í undirbúningsvinnu vegna samgöngumála, slysavarna og björgunarstarfa, umhverfisverndar, innviða, samstarfs við nágrannalönd og regluverks, ásamt því að stofna sérstakt ríkisolíufélag,“ segir í yfirlýsingunni.

Hlé gert á aðildarviðræðum við ESB

Þá kemur fram að gert verði hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt verði gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni.

„Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í yfirlysingunni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins við Héraðsskólann á Laugarvatni í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins við Héraðsskólann á Laugarvatni í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert