„Verkið er í höfn“

„Verkið er í höfn á þann hátt sem stjórnskipunin mælir fyrir,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, eftir fund sem hann átti fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, á Bessastöðum í dag.

Á fundinum greindi Sigmundur Davíð Ólafi Ragnari frá myndun nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ólafur Ragnar fól Sigmundi Davíð stjórnarmyndunarumboðið í lok apríl.

„Nú liggur það fyrir eftir samþykktir Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í gær að það verk hefur tekist. Formaður Framsóknarflokksins hefur greint mér frá niðurstöðu þessara viðræðna, bæði varðandi málefnaáherslur nýrrar ríkisstjórnar og skiptingu ráðuneyta,“ sagði Ólafur við blaðamenn á Bessastöðum.

Forsetinn sagðist ennfremur vera mjög ánægður með það að „þetta verk hefur gengið vel og það hefur ekki þurft að fara í lengri leiðangur með að mynda ríkisstjórn eins og oft varð nú hér á fyrri áratugum. Verkið er í höfn á þann hátt sem stjórnskipunin mælir fyrir og með eðlilegum hætti.“

Ólafur Ragnar óskaði síðan verðandi forsætisráðherra til hamingju með árangurinn og farsældar í starfi.

Klukkan 11 á morgun verður haldinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum sem fráfarandi ríkisstjórn mun sitja og í framhaldinu verður henni boðið til hádegisverðar.

Klukkan 15 verður haldinn annar ríkisráðsfundur þar sem ný ríkisstjórn mun taka við og fá sín skipunarbréf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert