„Það vantar allar útfærslur“

Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi atvinnuvegaráðherra, er lítt hrifinn af stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Að hans mati vantar margt í hana, enda hafi hún aðeins verið sett saman á örfáum klukkustundum.

„Ég er gáttaður á að sjá að þarna er ekki minnst á ríkisfjármálin,“ sagði Steingrímur við blaðamenn á Bessastöðum í dag, en þar hófst síðasti ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar Samfylkingar og VG.

Spurður út í umhverfismálin í nýjum stjórnarsáttmála, þá kveðst Steingrímur vera mjög dapur yfir því að búið sé að gengisfella þau „og fara með okkur 30 ár aftur í tímann í þeim efnum. Alveg nógu dapurt að sjá að við förum til baka í jafnréttismálunum, hvað varðar kynjahlutföll í ríkisstjórn. Þetta er ekki nútímalegur blær á þessum tveimur hlutum,“ sagði hann.

Aðspurður segir hann mjög óljóst hvernig málum verði háttað á Alþingi, þ.e. hvað varðar þátt stjórnarandstöðunnar. 

„Það er gríðarleg óvissa sem tengist því að stjórn er mynduð á svona óljósum, almennt orðuðum forsendum. Það vantar allar útfærslur. Vantar allt um ríkisfjármál og ríkisfjármálaáætlun til næstu ára. Það er það sem ég mun horfa mest á; hvernig tekst að halda við áætlanir í þeim efnum. Það er býsna krefjandi verkefni, held ég, að standa við það að skila hallalausum fjárlögum á næsta ári. Það er mjög mikilvægt fyrir trúverðugleika landsins,“ sagði Steingrímur við blaðamenn.

Hann bætti því jafnframt við að hann óski nýju fólki góðs gengis enda muni því ekki af veita.

Steingrímur J. Sigfússon á Bessastöðum í dag.
Steingrímur J. Sigfússon á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert