„Áfall að horfa á pabba berja mömmu“

Systurnar Thelma Ásdísardóttir og Ruth Ásdísardóttir bjuggu við ofbeldi alla …
Systurnar Thelma Ásdísardóttir og Ruth Ásdísardóttir bjuggu við ofbeldi alla sína barnæsku. mbl.is/Golli

„Það er gríðarlegt áfall sem fylg­ir því að horfa upp á pabba berja mömmu,“ seg­ir Ruth Ásdís­ar­dótt­ir, en hún og fjór­ar syst­ur henn­ar ólust upp við gróft og langvar­andi of­beldi í æsku. Hún seg­ir of­beldið á heim­il­inu hafa markað sig fyr­ir lífstíð.

Syst­ir Rut­h­ar, Thelma Ádís­ar­dótt­ir, sagði sögu sína í bók­inni „Mynd­in af pabba“ sem Gerður Krist­ný skrifaði og út kom árið 2005. Þar seg­ir hún frá langvar­andi of­beldi sem syst­urn­ar og móðir þeirra urðu fyr­ir. Mesta at­hygli vakti gróft kyn­ferðis­legt of­beldi sem faðir­inn beitti dæt­ur sín­ar, en Ruth og Thelma segja að það of­beldi sem þær urðu vitni að gagn­vart móður þeirra hafi ekki síður haft al­var­leg áhrif á þær.

Stund­um var ekki óhætt að koma heim

Þetta of­beldi var til staðar alla mína æsku. Ég man ekki eft­ir öðru en að það væri of­beldi inni á heim­il­inu,“ sagði Ruth.

„Pabbi var alltaf ógn. Jafn­vel þó að það hafi ekki verið stöðugt of­beldi gegn mömmu þá var þessi stöðugi ótti til staðar, um að þetta gæti komið fyr­ir aft­ur, og þessi ótti var mjög slæm­ur,“ sagði Thelma.

„Maður var alltaf bú­inn und­ir átök. Maður varð sér­fræðing­ur í að lesa í um­hverfið. Þegar ég kom heim úr skól­an­um þurfti ég að byrja á að skanna um­hverfið og kanna hvernig maður ætti að haga sér þenn­an dag­inn. Á maður að láta fara lítið fyr­ir sér, láta sig hverfa eða vera skemmti­legi krakk­inn? Allt miðaðist við að halda friðinn á heim­il­inu,“ sagði Ruth og bætti við að hún hefði talið sér trú um að hún gæti stjórnað aðstæðum á heim­il­inu, en í reynd hefði það ekki verið svo.

Thelma sagðist hafa upp­lifað barnæsk­una með sama hætti. Öll til­ver­an hefði snú­ist um hvernig pabba leið. Börn­in hefðu reynt að haga sér eins og þau töldu að hann vildi hafa hlut­ina í það og það skiptið. „Spurn­ing­in var þegar maður kom heim úr skól­an­um, á maður að vera lítið krútt, á maður að fela sig, á maður að vera skemmti­leg­ur til að hafa hann í góðu skapi eða á maður hrein­lega að hlaupa aft­ur út? Það gerðist að maður kom heim og heyrði læti og áttaði sig á að það var ekki óhætt að koma heim og þá snéri maður bara við og fór.“

„Maður vissi ekk­ert hvað gæti gerst“

Syst­urn­ar horfðu oft upp á föður sinn ganga í skrokk á móður þeirra. „Það er gríðarlegt áfall sem fylg­ir því að horfa upp á pabba berja mömmu. Þegar ég fór að vinna úr mín­um mál­um og upp­lifði svo­kölluð end­ur­lit, þá var það þetta sem kom fyrst upp í hug­ann, þ.e. at­vik sem ég varð vitni að þegar ég var mjög lít­il og varð vitni að of­beldi gegn mömmu. Þetta brýt­ur niður alla ör­yggis­kennd á heim­il­inu. Ég var mik­il mömmu-stelpa og leitaði mikið til mömmu. Þetta of­beldi sem ég varð vitni að hafði gríðarleg áhrif á mig og maður er allt lífið að vinna úr þessu,“ sagði Ruth.

Ruth sagði að hún og eldri syst­ur henn­ar hefðu reynt að koma mömmu sinni til varn­ar þegar þær voru komn­ar á ung­lings­ald­ur. Hún sagðist líka oft hafa verið í því hlut­verki að reyna að þagga niður í mömmu og reyna að koma í veg fyr­ir að hún segði eitt­hvað sem æsti hann upp.

Thelma sagði að það hefði komið fyr­ir að hún hefði reiðst mömmu sinni fyr­ir að segja og gera ekki það rétta. Hún sagðist vita í dag að of­beldið hefði ekki verið henn­ar sök, en þegar hún var barn hefði sjón­ar­mið henn­ar ein­fald­lega verið, hvernig er hægt að halda friðinn?

„Þegar ég varð vitni að of­beldi gagn­vart mömmu greip mig ofsa­hræðsla. Það varð al­gjört stjórn­leysi á heim­il­inu og maður vissi ekk­ert hvað gæti gerst. Við syst­ur vor­um beitt­ar ým­is­kon­ar of­beldi í barnæsku, en mér fannst meira áfall að verða vitni að því að pabbi væri að meiða mömmu, en ým­is­legt annað sem ég þurfti að þola,“ sagði Thelma.

„Hvers vegna þurft­ir þú að vera svona óþekk?“

Thelma og Ruth sögðu að þær hefðu oft kennt sjálfri sér um of­beldið. „Pabbi sagði stund­um við okk­ur, af því hann var alltaf að leita sér að af­sök­un­um til að fara á fyllirí eða í aðra neyslu: „Þið eruð bún­ar að vera svo leiðin­leg­ar og erfiðar að nú fer pabbi bara og kaup­ir flösku.“ Þá bar maður ábyrgðina á öllu því sem fylgdi í kjöl­farið. Við vor­um bara börn og kennd­um stund­um hvor ann­arri um hvernig staðan væri á heim­il­inu. Við sögðum: „Sérðu nú er pabbi full­ur. Hvers vegna þurft­ir þú að vera svona óþekk?“


Hann var því dug­leg­ur að setja ábyrgðina á okk­ur. Ég held reynd­ar að of­beld­ismaður­inn þurfi ekki að segja þetta með skýr­um hætti, því krakk­ar taka oft­ast ábyrgð á sig,“ sagði Thelma.

„Það fór öll ork­an í að lifa af og þola ástandið,“ sagði Ruth. Hún sagðist oft hafa notað þá aðferð að hverfa og loka hrein­lega fyr­ir það sem var að ger­ast. Hún sagði þetta þekkt fyr­ir­brigði í sál­fræði. Barnið færi þá inn í skel og sæi ekki eða heyrði það sem væri að ger­ast í um­hverf­inu.

„Ég óttaðist oft um líf mitt“

„Ég óttaðist oft um líf mitt. Hann hótaði oft að drepa okk­ur. Þetta var raun­veru­leg hætta,“ sagði Ruth.

Thelma sagði að líf­láts­hót­an­irn­ar hefðu verið óhugn­an­leg­ar. „Hann sveiflaði hníf­um fyr­ir fram okk­ur og lýsti því fyr­ir okk­ur hvað myndi ger­ast þegar hann myndi rista okk­ur upp, hvernig blóðið myndi spýt­ast o.s.frv. Hann sagði okk­ur sög­ur af fólki sem hefði misst öll inn­yfl­in út úr sér. Maður var því skelf­ingu lost­inn. Síðan þegar hann ógnaði mömmu, öskureiður með hnífa í hendi, urðum við auðvitað dauðhrædd.

Ég man eft­ir því þegar ég var 5 ára göm­ul og ég náði að trufla pabba sem varð til þess að hann sló mig. Ég man að mér létti af því að mér fannst svo vont að horfa á hann lemja mömmu. Ég vildi frek­ar að högg­in lentu á mér.“

„Þú get­ur ekk­ert gert og horf­ir bara á“

Ruth sagði að börn sem upp­lifðu svona of­beldi finndu fyr­ir mik­illi van­mátt­ar­kennd. „Þú ert al­gjör­lega bjarg­ar­laus. Mamma var minn ör­ygg­is­ventill og líka eldri syst­ur mín­ar og maður finn­ur fyr­ir gríðarleg­um van­mætti að horfa á ást­vini sína í þess­ari stöðu. Þú get­ur ekk­ert gert og horf­ir bara á.“

Ruth sagði að það hefði mik­il áhrif á til­finn­inga­líf barna að verða vitni að of­beldi. Hún sagðist hafa dregið sig inn í skel og lokað á all­ar til­finn­ing­ar. Þetta hefði verið henn­ar aðferð til að finna ekki fyr­ir sorg eða hræðslu. „Það hef­ur verið talað um að ein ástæðan fyr­ir því að þolend­ur of­beld­is fara í neyslu þegar þeir verða eldri sé að þá get­ur fólk ekki eins vel lokað á erfiðleik­ana með því að láta sig hverfa.“

Thelma sagðist ekki hafa tek­ist á við of­beldið með al­veg sama hætti. Hún sagðist reynd­ar líka hafa af­tengt sig við raun­veru­leik­ann eins og Ruth. „Ég held að börn sem gera það ekki eigi mörg hver erfitt með að lifa af. En ég fór síðan út í það að verða mjög ár­vök­ul. Ég tók eft­ir öllu og var alltaf með hug­ann við hvort það væri eitt­hvað sem ég gæti gert eða sagt til að stýra þróun mála.“

Börn sem upp­lifa of­beldi verða mjög meðvirk

Thelma sagði að börn sem upp­lifðu of­beldi yrðu fljót­lega mjög meðvirk. Þau væru stöðugt að reyna að stýra ástand­inu. Þetta hefði hún tekið með sér út í lífið.

Ruth sagði að hún hefði fengið þau skila­boð að heim­an að hún mætti ekki standa á sínu því það gat verið var­samt að gera það. „Allt sem aðrir sögðu var rétt­ara en það sem manni sjálf­um fannst. Það var heil­mik­il upp­götv­un þegar ég var að verða tví­tug og fór að átta mig á að ég mátti hafa skoðun og mátti segja nei.“

Ruth sagðist sem barn hafa lært að heim­ur­inn væri óvin­veitt­ur og að um­hverfið væri hættu­legt. Til viðbót­ar við langvar­andi og al­var­legt of­beldi á heim­il­inu upp­lifði hún einelti í skóla. Hún sagði að það hefði tekið sig lang­an tíma að vinna úr þessu og það kæmi öðru hverju fyr­ir að hún upp­lifði þessa sömu til­finn­ingu.

Thelma sagði að fyr­ir flest börn væri heim­ilið ör­ugg­ur staður þar sem alltaf væri hægt að leita skjóls þó að á ýmsu gengi. „Við upp­lifðum sjald­an þessa til­finn­ingu. Við fór­um aldrei heim ef það var slag­ur í göt­unni því þar gat verið ennþá hættu­legra að vera. Heim­ilið var bara víg­völl­ur.“

Thelma sagði að móðir sín hefði gert sitt besta og hún hefði veitt viss­an takt í lífið. Hún hefði alltaf verið með heit­an mat á mat­máls­tím­um og passað upp á að syst­urn­ar væru hrein­ar og fín­ar, stunduðum skól­ann og tækju lýsi á morgn­ana. Þrátt fyr­ir allt hefði henni tekst að tryggja vissa festu og reglu á heim­il­inu. Þraut­seigla mömmu átti stærst­an þátt í því að við kom­umst í gegn­um þetta.

Fagnaði hjóna­skilnaðinum

Fyr­ir flest börn er skilnaður for­eldra nei­kvæður og hon­um fylg­ir oft mik­il sorg. Ruth sagði að það hefði alls ekki átt við í sínu til­viki, en for­eldr­ar henn­ar skildu þegar hún var 13 ára göm­ul. „Fyr­ir mér var skilnaður for­eldra minna al­gjört frelsi. Ég man ennþá stund­ina þegar mamma kom heim með skilnaðarpapp­ír­ana. Við hoppuðum af kæti og föðmuðust. Fyr­ir mér var hann skrímsli.“

Thelmu þótti hins veg­ar alla tíð vænt um pabba sinn, þrátt fyr­ir allt of­beldið. Hún var flutt að heim­an þegar for­eldr­ar henn­ar skildu. Hún sagðist hafa verið feg­in að hjóna­band­inu væri lokið og friður færðist yfir heim­ilið, en hún hefði samt fundið til með hon­um. Ástæðan hefði ekki síst verið meðvirkni. Hann hefði haldið áfram að hafa tök á lífi henn­ar þó að hún byggi ekki leng­ur ná­lægt hon­um.

„Okk­ar mál er ekki eins­dæmi“

Óhætt er að segja að þjóðin hafi orðið fyr­ir vissu áfalli þegar bók Thelmu kom út og hún upp­lýsti í viðtöl­um um það gengd­ar­lausa of­beldi sem hún og syst­ur henn­ar máttu þola í mörg ár. Sú spurn­ing vakn­ar hvort saga þeirra sé ekki eins­dæmi á Íslandi.

Thelma hef­ur unnið með þolend­um of­beld­is und­an­far­in ár, en hún seg­ir að saga þeirra systra sé ekki eins­dæmi. „Það eru klár­lega til dæmi hér á landi um svipaða hluti. Ég hef unnið með þolend­um of­beld­is í mörg ár og hef fengið að heyra marg­ar ljót­ar sög­ur. Það er margt fólk sem hef­ur þurft að þjást eins og við syst­ur gerðum.

Það eru auðvitað marg­ir sem hafa orðið fyr­ir of­beldi og líður eins og þeir hafi orðið fyr­ir „litlu of­beldi“ og finnst ein­mitt, eft­ir að hafa heyrt um okk­ar grófu og grimmu sögu, að það sé ekki ástæða til að gera mikið úr hlut­un­um. Minni­hátt­ar of­beldi get­ur hins veg­ar haft al­veg eins slæm­ar af­leiðing­ar eins og gróft of­beldi. Þetta snýst ekki um „magn of­beld­is“ held­ur hvað er gert. Um leið og annað for­eldri hef­ur ráðist á hitt í viðurvist barns þá hef­ur ótti grafið um sig hjá barn­inu. Þetta er ótt­inn við að þetta ger­ist aft­ur og hann skemm­ir og er niður­brjót­andi.“

Þörf á að styrkja barna­vernd­ar­kerfið

Thelma sagði að vel­ferðar­kerfið væri vissu­lega orðið sterk­ara í dag en það var þegar hún var barn, en við gæt­um á mörg­um sviðum gert bet­ur. Það þyrfti að styrkja barna­vernd­ar­kerfið með því að setja meiri fjár­muni í mála­flokk­inn og ráða fleira starfs­fólk. Hún nefndi sem dæmi að hver starfsmaður Barna­vernd­ar Reykja­vík­ur væri með allt að 70-80 mál. Aug­ljóst væri að viðkom­andi gæti ekki sinnt öll­um mál­um eins vel og hann vildi. Það já­kvæða væri að í dag væru þolend­ur of­beld­is að fá miklu meiri aðstoð en áður. Slík aðstoð hefði nán­ast ekki verið til þegar hún var að al­ast upp.

Ruth sagði að nú væri gripið fyrr inn í mál og og börn­in fengju fyrr aðstoð sem væri mjög mik­il­vægt. Inn­grip fyrr væri líka liður í for­vörn­um og drægi úr lík­um á að of­beldið héldi áfram. Hún sagði að sam­fé­lagið þyrfti að ein­beita sér að því að koma í veg fyr­ir að mann­eskja yrði ger­andi, með því ein­mitt að grípa fljótt inn í. Við þyrft­um að spyrja okk­ur þeirr­ar spurn­ing­ar, af hverju verður mann­eskja ger­andi seinna á lífs­leiðinni?

„Mér finnst að sam­fé­lagið sé of meðvirkt þegar kem­ur að of­beldi sem börn þurfa að þola. Fólk þegir oft ótrú­lega lengi þó að barn sé að sýna aug­ljós ein­kenni um að eitt­hvað sé að. Það er mik­ill ótti hjá fólki við að láta vita um að mögu­lega sé eitt­hvað að,“ sagði Ruth.

Thelma sagði að það væru því miður mörg dæmi um að sá sem stigi fram, tæki af­stöðu með þolanda of­beld­is og vildi að eitt­hvað væri gert mætti and­stöðu annarra í fjöl­skyld­unni. Viðkom­andi væri jafn­vel út­hýst úr fjöl­skyld­unni. Hún sagði sárt þegar slíkt gerðist.

„Of­beldi fer ekki í mann­grein­ingarálit“

Ruth sagði að hafa þyrfti í huga að of­beld­is­menn væri að finna í öll­um stétt­um sam­fé­lags­ins. „Of­beldi fer ekki í mann­grein­ingarálit frek­ar en sjúk­dóm­ar. Of­beld­is­menn geta verið alls staðar og þolend­ur geta verið alls staðar. Fólk ber ekki endi­lega sýni­leg­ar af­leiðing­ar of­beld­is utan á sér.“

Thelma sagði að það gætti stund­um mis­skiln­ings um að börn sem byggju á heim­il­um þar sem of­beldi væri til staðar væru óþekk eða sýndu hegðun sem benti til að eitt­hvað væri að. Þetta ætti alls ekki alltaf við. Hún og syst­ur sín­ar hefðu alla tíð verið prúðar og stillt­ar og náð góðum ár­angri í skóla.

Thelma sagði að börn væru líka ótrú­lega snjöll í að fela of­beldið. „Ég verð oft vör við að fólk ger­ir ráð fyr­ir því að það sem barn segi um aðstæður inni á heim­ili sé heil­ag­ur sann­leik­ur. Ég var sjálf mjög ung þegar ég byrjaði að ljúga til um það sem gekk á heima hjá mér. Ástæðan var að nokkru leyti ótti. Okk­ur var bein­lín­is hótað ef við segðum frá.

Börn upp­lifa sig líka oft sem fram­leng­ingu á sínu heim­ili og vilja ekki segja frá því að þau komi frá vondu heim­ili. Stund­um finn­ur barnið fyr­ir sekt og finnst það bera að hluta til ábyrgð á of­beld­inu. Hvaða barn treyst­ir sér til að segja: „Ég er vald­ur að því að pabbi réðist á mömmu mína." Svo má ekki gleyma því að börn elska for­eldra sína og vilja ekki að pabb­inn eða mamm­an fari í fang­elsi eða að það verði hjóna­skilnaður.“

Ruth segir að börn sem upplifa ofbeldi á heimilum finndu …
Ruth seg­ir að börn sem upp­lifa of­beldi á heim­il­um finndu fyr­ir mik­illi van­mátt­ar­kennd. mbl.is/​Golli
„Ég man eftir því þegar ég var 5 ára gömul …
„Ég man eft­ir því þegar ég var 5 ára göm­ul og ég náði að trufla pabba sem varð til þess að hann sló mig. Ég man að mér létti af því að mér fannst svo vont að horfa á hann lemja mömmu. Ég vildi frek­ar að högg­in lentu á mér,“ seg­ir Thelma. mbl.is/​Golli
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert