Bjarni „góður maður og ábyrgur“

Katrín pakkaði niður í ráðuneyti sínu í dag. Hún var …
Katrín pakkaði niður í ráðuneyti sínu í dag. Hún var greinilega hrærð eftir lyklaskiptin og bar eftirmanni sínum vel söguna. Kristinn Ingvarsson

Katrín Júlíusdóttir hyggst styðja Bjarna Benediktsson, nýjan fjármála- og efnahagsráðherra, í baráttunni við að ná niður halla ríkissjóðs. Bjarni  sé „góður maður og ábyrgur“ sem hún muni styðja til góðra verka. Katrín telur hins vegar að ekki sé raunhæft að lækka skatta á þessu ári.

„Ég er sátt við það verk sem við erum að skila eftir þessi fjögur ár. Þetta er búið að vera gríðarlega erfitt. Það hafa margar áskoranir orðið á vegi okkar og ég held að við séum að skilja mjög vel við. Það undirstrikar það að menn hafa ekki þurft að flýta sér við að ljúka stjórnarmyndunarviðræðum og enginn asi verið á þeim. En þegar við tókum við stjórnartaumunum voru eldar logandi á Austurvelli.

Það er því önnur staða núna og við það er ég mjög sátt. Ég er líka mjög sátt við að skila ráðuneytinu í hendur Bjarna. Ég hef þekkt hann í þau tíu ár sem ég hef verið á þingi. Við komum bæði inn á þing á sama tíma. Ég veit að þar er bæði góður maður og ábyrgur á ferð og ég held að við höfum sama metnað og sömu markmið um það að byrja sem fyrst að greiða niður skuldir ríkisins og fara að skila heildarjöfnuði. Eða strax á næsta ári eins og áætlanir okkar gera ráð fyrir. Ég hyggst styðja hann í því úr öðrum stóli í þinginu.“

„Valentínusarslátrun“ kemur niður á Íslandi
 
- Steingrímur J. Sigfússon segir í samtali við Morgunblaðið á morgun, föstudag, að staðan í ríkisfjármálum sé tæp. Ertu sammála?

„Já, það er alveg rétt. Það hafa ákveðnir hlutir verið að gefa eftir í efnahagsumhverfinu, hinu alþjóðlega efnahagslífi, sem við vorum kannski að vona að yrðu betri þegar komið væri á þennan tímapunkt. Það hefur haft áhrif hingað. Það er talað um Valentínusarslátrun í hagvaxtarspám heimsins, þ.e.a.s. þegar þær lækkuðu meira og minna allar í febrúar. Þær hafa áhrif hingað. Menn þurfa að fara vel yfir stöðuna.

Ég held samt að það þurfi ekki mikið átak til þess að ná þeim heildarjöfnuði og halda ríkisfjármálaáætluninni sem við höfum stefnt að á næsta ári. Þannig að vonandi taka menn þær ákvarðanir sem til þarf til þess að þeir geti náð þeim árangri.

Ég skal vel styðja menn í því. Vegna þess að það að greiða 90 milljarða á ári í vexti, það eru að mínu mati blóðpeningar. Þetta eru peningar sem við eigum að vera nota í verðugri verkefni en að borga fjármagnseigendum úti í heimi.“

Hallinn lækkaður úr 216 milljörðum í 3,7 milljarða

- Fulltrúar atvinnulífsins hafa lýst yfir ánægju með fyrirhugaðar skattalækkanir. Telur þú sem fráfarandi ráðherra og áhrifamaður í Samfylkingunni að þið hefðuð átt að nýta svigrúm til skattalækkana fyrr?
 
„Því miður er svarið nei. Við gerðum það eins og við gátum núna. Við lækkuðum til dæmis tryggingargjaldið um 0,1% á þessu ári af því að við gátum ekki meira. Við litum svo á að það væri okkar verkefni að ná heildarjöfnuði frá 216 milljarða halla árið 2008 niður í 3,7 milljarða halla á þessu ári.

Það var verkefni þeirrar stjórnar sem nú er að fara frá. Því miður gátum við það ekki fyrr en svo sannarlega verður að gera það þegar svigrúm skapast og við munum styðja skattalækkanir eins og til dæmis með tryggingargjaldinu. Það er mjög mikilvægt að það verði gert.“

Ekki svigrúm fyrir skattalækkanir
 
- Þannig að þú telur að það sé ekki svigrúm fyrir skattlækkanir út þetta ár?
 
„Ekki þetta ár. Það er það ekki. Við höfum séð hagvaxtarspána gefa eftir. Ef farið verður í skattalækkanir gætum við séð meiri mínus í ríkisfjármálum en við vildum sjá og þá höldum við áfram að safna skuldum og það er ekki góður kostur fyrir Íslendinga.“
 
- Þú telur að senn verði svigrúm til að lækka skatta. Hvers vegna hélduð þið því ekki á lofti í kosningabaráttunni?
 
„Við gerðum það en við sögðum jafnframt að staðan væri viðkvæm og erfitt að lofa tímasettum lækkunum en að þegar svigrúm skapaðist á næstu árum væri tryggingargjaldið það fyrsta sem myndi lækka.“

Ætlar að sinna vinum sínum betur
 
„Hvernig verður þitt líf núna? Þú ert nýbúin að eignast tvíbura. Hvað ætlarðu að gera næstu mánuði?
 
„Ég ætla að sinna strákunum og manninum mínum. Ég ætla líka að fara í ræktina og rækta sjálfa mig af því að maður þarf að styrkja sig og rétta úr bakinu eftir að hafa bograð yfir verkefnum síðustu ára. Síðan ætla ég líka að sinna vinum mínum vegna þess að þeir hafa setið á hakanum. Ég er ekki viss um að þeir taki því jafnvel ef ég held áfram að halda uppi samskiptum í gegnum sms í framtíðinni.“
 
- Hvernig meturðu frammistöðu fráfarandi stjórnar?
 
„Ég er mjög sátt við allt sem við höfum gert. Allar ákvarðanir eru umdeilanlegar. En ég er mjög sátt við heildarárangurinn,“ segir Katrín.
  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert