Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, gagnrýnir hlut kvenna í nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á Facebook-síðu sinni í kvöld og spyr hversu lengi það svar dugi að hæfileikar eigi að ráða ferðinni en ekki kyn.
„Er það ekki gott fordæmi í jafnréttismálum ef maður gerir ekki upp á milli manna út frá kyni?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í Kastljósinu í kvöld spurður út í kynjahlutfallið í ríkisstjórn hans en níu ráðherrar eru í stjórninni og þar af þrjár konur.
„Hve lengi dugar svarið: Hæfileikar ráða för en ekki kyn? Þegar reynt er að útskýra af hverju konur eru í minnihluta í valdastöðum?“ spyr Katrín.