Sá áfangi náðist eftir loðnuvertíðina í vetur að Beitir NK varð reyklaust skip. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að enginn í áhöfn íslensks fiskiskips af þessari stærð reykti um borð en það hefur löngum viljað loða við íslenska sjómenn að þeir væru býsna háðir tóbakinu, segir í frétt á vef Síldarvinnslunnar.
Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á reykleysið sér nokkurn aðdraganda. Sá næst síðasti í áhöfninni sem hætti að reykja lagði sígaretturnar á hilluna fyrir um það bil einu ári og sá síðasti lét undan nokkrum þrýstingi og kvaddi tóbakið í lok loðnuvertíðarinnar. Hjörvar sagði að þegar nótaveiðar hófust á síðustu loðnuvertíð og bætt var við mönnum í áhöfnina hefði hinum nýráðnu verið gerð grein fyrir því að þeir væru að ráða sig á skip sem áformað væri að yrði reyklaust, þeir væru í reynd að ráða sig á reyklausan vinnustað. Þeir sem hlutu ráðningu og reyktu tilkynntu strax að þeir væru hættir ósómanum og við það var staðið, segir í fréttinni.