„Þakklátur fyrir tækifærið“

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson. mbl.is/ÞÖK

„Ég er auðvitað mjög þakklátur fyrir það tækifæri að fá gegna þessari miklu ábyrgðar- og virðingarstöðu. Ég finn mjög til ábyrgðar minnar að takast þetta verkefni á hendur,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í tilefni af því að hann er tilnefndur næsti þingforseti.

Kemur til kasta sumarþings í júní að kjósa hann í embættið.

Einar boðar samstarf við þingmenn úr stjórnarandstöðuflokkunum.

„Það sem ég hef fyrst og fremst áhuga á að gera er að ná fram mjög víðtæku samstarfi við þingmenn alla. Fyrir öllum forsetum, fyrr og síðar, hefur það alltaf vakað, að vera forseti Alþingis alls, allra þingmanna. Það er einkanlega þannig sem ég hef áhuga á að vinna. Ég hef hugsað mér, þegar fyrir liggur um kjör mitt, sem ekki hefur farið fram, að eiga samtal við fulltrúa stjórnmálaflokkanna á Alþingi um fyrirkomulag þingstarfanna.

Ég vonast til þess að það geti orðið gott samkomulag um það. Það reynir auðvitað á bæði vilja stjórnar og stjórnarandstöðu í þeim efnum. Í þessum anda hef ég hugsað mér að reyna að starfa,“ segir Einar.

Spurður hvort hugur hans hafi staðið til ráðherrasetu segist Einar hafa verið reiðubúinn að takast slíkt verkefni á hendur.

„Ég hefði verið þess albúinn að takast á hendur ráðherrastarf og það hefði verið mjög heillandi viðfangsefni að geta unnið að tilteknum verkefnum og koma í framkvæmd hlutum sem ég hef áhuga á. Starf forseta Alþingis er hins vegar mikil áhrifastaða og ég mun auðvitað beita þeim áhrifum í þágu þeirra málefna sem ég vil berjast fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert