Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi úrskurð innanríkisráðuneytisins um að endursenda Nígeríumann til Svíþjóðar án þess að umsókn hans um hæli á Íslandi yrði tekin til meðferðar. Einnig var felld úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að fella niður framfærslu mannsins.
Samuel Eboigbe Unuke krafðist þess að ógiltur yrði úrskurður innanríkisráðuneytisins frá 9. júlí 2012 og felld yrði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 28. mars 2012, þar sem ákveðið var að umsókn hans um hæli á Íslandi yrði ekki tekin til meðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur ásamt umsókn hans til Svíþjóðar.
Var synjað um hæli í Svíþjóð
Unuke er nígerískur ríkisborgari og kom til Íslands í desember 2011 frá Svíþjóð eftir að umsókn hans þar um hæli hafði verið synjað. Í stefnu greinir svo frá að hann hafi flúið frá heimalandi sínu, Nígeríu, þar sem hann taldi sig vera í mikilli hættu. Hafi hann gengið til liðs við pólitísku andspyrnuhreyfinguna „MEND“ (e. Movement for the Emanciption of the Niger Delta) en hreyfingin berjist fyrir sjálfstæði Niger Delta svæðisins í Nígeríu á grundvelli þess að fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnir hafi arðrænt svæðið í gegnum tíðina með hörmulegum afleiðingum fyrir íbúa landsins.
Safnaði saman stúdentum til að mótmæla
Hlutverk Unuke í hreyfingunni hafi í upphafi verið að safna saman stúdentum til stuðnings MEND gegn þáverandi ríkisstjórn sem hefði orðið uppvís að margþættum mannréttindabrotum gegn þegnum landsins. Vegna leka sem upp hafi komið hafi einn forsvarsmanna MEND verði handtekinn og hafi Unuke og aðrir forystumenn samtakanna verið í mikilli hættu þar sem ekki sé hægt að búast við réttlátri málsmeðferð af hálfu yfirvalda, sérstaklega ef um er að ræða andófsmenn gegn stjórnvöldum, segir í málsskjölum lögfræðings hans, Katrínar Oddsdóttur.
Gert að ganga undir manndómsvígslur, svo sem mannrán ofl.
Unuke hafi flúið en síðar hafi honum verið boðið að gerast meðlimur í undirdeild MEND. Þar hafi hann átt þess kost að vera hátt settur og jafnvel pólitískur leiðtogi. Unuke hafi samþykkt þetta án þess að gera sér grein fyrir því að honum yrði gert að gangast undir manndómsvígslur sem áttu meðal annars að fela í sér mannrán og fleiri glæpsamleg athæfi en slíkt sé andstætt sannfæringu Unuke og hafi hann reynt að hætta í hreyfingunni. Það hafi þó reynst of seint og hafi verið litið á hann sem svikara og mögulegan uppljóstrara.
Skömmu síðar hafi hópur manna veist að Unuke þar sem hann hafi setið á veitingastað. Mennirnir sem hafi verið meðlimir hreyfingarinnar hafi beitt Unuke alvarlegu ofbeldi og sjáist ummerki þess greinilega á Unuke enn í dag. Unuke kveðst hafa misst meðvitund. Hann hafi rankað við sér þar sem verið var að flytja hann á afvikinn stað og hafi hann talið ljóst að ætlunin væri að myrða hann. Honum hafi þó tekist að flýja þar sem almennir borgarar hafi komið að árásarmönnunum, segir enn fremur í skjölum málsins.
Eftir árásina hafi Unuke verið alvarlega slasaður og gert sér grein fyrir því að líf hans væri í mikilli hættu. Hótanir hafi farið að berast honum frá Uruba ættbálknum, sem tengdist MEND-hreyfingunni og kalli sig OPC (Odua Peoples Congress). Flokkurinn sé valdamikill og hafi Unuke gert sér grein fyrir því að hann væri í hættu alls staðar í Nígeríu. Hann hafi því afráðið að flýja landið, að því er fram kemur í dómsskjölum málsins fyrir héraðsdómi í dag.
Unuke telur sig í mikilli lífshættu verði honum gert að fara aftur til Nígeríu. Hann óttist verulega að verða fyrir ofsóknum hvar sem er í heimalandi sínu og því geti hann ekki flutt innanlands til þess að forða sér frá hættu.
Flúði frá Spáni til Svíþjóðar og þaðan til Íslands
Unuke hafi tekist að flýja til Evrópu en hann hafi þurft að yfirgefa Spán en þar hafi margir meðlimir MEND-hreyfingarinnar verið. Hann hafi talið sig í lífshættu þar. Stefnandi hafi loks komist til Svíþjóðar þar sem hann hafi sótt um hæli í lok júní 2010. Umsókn hans hafi verið synjað í nóvember s.á. en hann hafi kært þá niðurstöðu án árangurs. Þegar Unuke varð ljóst að fyrirhugað var að senda hann til Nígeríu frá Svíþjóð hafi hann óttast svo um líf sitt að hann hafi brugðið á það ráð að flýja til Íslands.
Með beiðni 16. desember 2011 óskaði Unuke eftir því að verða veitt hæli hér á landi sem flóttamaður. Útlendingastofnun, tók þá ákvörðun 28. mars 2012 að hafna því að beiðni hans yrði tekin til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur ásamt beiðni sinni til Svíþjóðar.
Unuke kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins sem staðfesti niðurstöðuna með úrskurði 9. júlí 2012. Úrskurðurinn var birtur honum 2. ágúst sama ár. Með úrskurði 19. september s.á. féllst ráðuneytið á beiðni Unuke um frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Var fresturinn bundinn því skilyrði að mál hans yrði borið undir dómstóla innan tíu daga frá birtingu ákvörðunarinnar og að þess yrði óskað að mál hans hlyti flýtimeðferð.
Ekki borið að skoða málið efnislega
Af hálfu Útlendingastofnunar var því haldið fram að stjórnvöldum hafi ekki borið að skoða efnislega hvort veita bæri Unuke hæli hér á landi. Stofnuninni hafi einungis borið að meta hvort hælisumsókn Unuke skyldi tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi eða í Svíþjóð, segir í dómi héraðsdóms.
Þá mótmælir íslenska ríkið því að endursending til Svíþjóðar jafngildi endursendingu til Nígeríu og að málsmeðferð sú sem Unuke naut í Svíþjóð hafi verið ábótavant.
Þegar Unuke hafi 8. nóvember 2012 ætlað að sækja vikulegu framfærslu sína frá Reykjanesbæ fékk hann þær upplýsingar að hann myndi ekki lengur fá framfærslu þar sem hann dveldist ekki lengur í Reykjanesbæ. Hafi honum að auki verið gert að afhenda lykla að herbergi sem félagsþjónusta Reykjanesbæjar hafi útvegað honum á grundvelli sömu raka.
Framfærslan nemi annars vegar 2.700 krónum í reiðufé og hins vegar 8.000 krónum, sem lagðar voru inn á greiðslukort, sem gildi aðeins í verslunum Bónuss.
Unuke segist hafa tjáð fulltrúa Reykjanesbæjar að hann hefði ekki flutt úr bæjarfélaginu og hefði ekki aðra leið til að framfleyta sér en með umræddri framfærslu. Hafi þá fulltrúi Reykjanesbæjar brugðið á það ráð að prenta út færslulista yfir notkun á inneignarkorti stefnanda í Bónus, sem sýndi verslunarferðir hans frá því í ágúst 2012. Fulltrúinn hafi ætlað að sýna fram á með listanum að Unuke væri fluttur úr bæjarfélaginu, segir í rökum lögfræðings Unuke fyrir dómi.
Rannsóknarskyldu ekki fullnægt af hálfu Útlendingastofnunar
Í niðurstöðu héraðsdómara kemur fram að Útlendingastofnun hafi ekki hnekkt þeim orðum Unuke að líf hans muni vera í hættu verði hann sendur aftur til Nígeríu enda hafi stofnunin hvorki tekið efnislega afstöðu í málinu né aflað gagna sem skipta máli við úrlausn á því hvort óheimilt er að senda hann til Svíþjóðar.
Telur dómari að að ekki sé fullnægjandi rannsóknarskylda af hálfu Útlendingastofnunar að leggja fram skýrslu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð um málsmeðferð og afgreiðslu sænsku Útlendingastofnunar á hælismálum.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Katrínar Oddsdóttur hdl., að fjárhæð 600.000 krónur án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. Jafnframt var málskostnaður milli málsaðila felldur niður, samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms.