Vísitalan hækkaði um 38% á árunum 2006-2010

Greining Íslandsbanka segir að enn eigi eftir að útfæra nákvæmlega þá leið sem ný ríkisstjórn ætlar að fara til að lagfæra skuldavanda heimilanna. Í stefnuyfirlýsingu flokkanna segir að grunnatriðið verður að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010 en í því augnmiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum.

Greining Íslandsbanka bendir á að vísitala neysluverðs hækkaði frá upphafi desember 2006 til desember 2010 um tæplega 38%. Hækkunin er 36% ef miðað er við tímabilið janúar 2007 til janúar 2011. Hugsanlegt er að í útfærslunni verði miðað við aðra tímapunkta innan þessara ára, segir í Morgunkorni Íslandsbanka. „Þar er því ákveðin óvissa varðandi útfærsluna sem eftir á að skýra. Sama hvernig því er samt snúið þá er um umtalsverða hækkun á vísitölu neysluverðs að ræða. Þess má geta að nafnverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 1% á tímabilinu.“

Hver verður ófyrirséða höfuðstólshækkunin?

Þá er það mat Greiningar Íslandsbanka að einnig sé óljóst hvaða viðmið verður notað þegar reiknaður er út hinn ófyrirséði hluti hækkunarinnar. Reikna má með því að gólfið í því sé 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verði sú leið farin yrði dregið frá ofangreindri 38% hækkun 10% sem væri sá hluti sem teldist fyrirséður. Önnur leið sem kann að vera farin er að taka meðaltal verðbólgunnar nokkur ár fyrir þann tíma er leiðréttingin tekur tillit til. Verðbólgan var þannig að meðaltali 3,9% á tíu ára tímabilinu fyrir árið 2007. Ef sú tala yrði notuð yrði ófyrirséði hlutinn talsvert minni en ef verðbólgumarkmiðið yrði notað.

Verðbólguvæntingar almennings miklar í upphafi árs 2007

Vel má vera að aðrar leiðir verði valdar, t.d. að miða við almennar verðbólguvæntingar líkt og þær voru á árinu 2007 og mældar af Seðlabankanum. Fyrsta mælingin á árinu 2007 var í febrúar. Þá voru verðbólguvæntingar almennings 5,7% til árs en ekki voru mældar verðbólguvæntingar almennings til lengri tíma. Mælingin bendir samt til þess að verðbólguvæntingar hafi verið miklar á þessum tíma og þannig er hinn ófyrirsjáanlegi hluti hækkunar vísitölu neysluverðs á þeim tíma sem leiðréttingin tekur til minni.

Fjárhæð höfuðstólslækkunarinnar umtalsverð

Verðtryggðar skuldir heimilanna í upphafi árs 2007 1.071 milljarða króna samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Ef reiknuð er ofangreind 38% hækkun vísitölu neysluverðs ofaná það færst hækkun upp á 404 milljarða króna. Þá þarf að draga frá sá hluti sem skilgreindur verður sem fyrirséður. Síðan má reikna má með að talsverðar hreyfingar hafi verið innan lánasafnsins á tímabilinu. Í útfærslu ríkisstjórnarinnar verður því að ná til allra hreyfinga á tímabilinu, þ.e. þeirra sem geriddu upp lán sín, tóku ný lán, fengu skuldaleiðréttingu o.s.frv.

Til að ná fram leiðréttingunni segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: „Beita má bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.“ M.a. í þessu ljósi kann niðurfærslan að verða eitthvað lægri en sem nemur muninum á hækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu og þeim vænta verðbólguhluta sem miðað verður við, segir í Morgunkorninu.

Mikill meirihluti af skuldum heimilanna fyrir hrun var verðtryggður. Þá voru íslensk heimili talsvert skuldsett í aðdraganda hrunsins. Stofn verðtryggðra skulda í upphafi árs 2007 var því stór og því ljóst að um er að ræða umtalsverðan tilflutning á fjármagni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert