Ákvörðun um friðun á innra byrði Fríkirkjuvegar 11 í Reykjavík, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, skal endurupptekin.
„Menntamálaráðuneytið ákvað að málið yrði tekið upp aftur. Að okkar mati voru ýmsir ágallar á málsmeðferðinni og ráðuneytið virðist sama sinnis,“ segir Ragnhildur Sverrsdóttir, talsmaður Björgólfs Thors í samtali við mbl.is. Hún segir að ráðuneytið hafi nýverið greint Björgólfi frá ákvörðun sinni
Hún bætir við að málið fari nú á byrjunarreit en tekur fram að húsið sé enn friðað á meðan það sé til meðferðar hjá Minjastofnun Íslands. Menn ráðist því ekki í neinar framkvæmdir á meðan.
Í júlí í fyrra féllst Katrín Jakobsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, á tillögu Húsafriðunarnefndar, sem nú heitir Minjastofnun Íslands, um að friða innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11.
Húsafriðunarnefnd hafði óskaði eftir því í janúar í í fyrra að forstöðumaður hefði undirbúning á friðuninni vegna áætlana Björgólfs Thors um að gera miklar breytingar á því
Björgólfur Thor var mjög ósáttur við málsmeðferðina og kvartaði til Umboðsmanns Alþingis sem sendi í framhaldinu fyrirspurn til menntamálaráðuneytisins. Hann spurði m.a. um hvernig hefði verið staðið að málinu og hvort það hefði samræmst reglum stjórnsýsluréttar um andmælarétt og lögbundna rannsóknarskyldu.
„Ráðuneytið svaraði á þennan einfalda hátt að málið skyldi tekið upp aftur. Það hlýtur að fela í sér að ráðuneytið hafi verið sammála því að ekki hafi verið fyllilega staðið að þessu,“ segir Ragnhildur.
Minjastofnun Íslands tjáir sig ekki um málið að svo stöddu.