Friðun Fríkirkjuvegar 11 á byrjunarreit

Húsið reisti athafnamaðurinn Thor Jensen á árunum 1907-1908 og var …
Húsið reisti athafnamaðurinn Thor Jensen á árunum 1907-1908 og var það á sínum tíma glæsilegasta íbúðarhús Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðun um friðun á innra byrði Fríkirkjuvegar 11 í Reykjavík, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, skal endurupptekin.

„Menntamálaráðuneytið ákvað að málið yrði tekið upp aftur. Að okkar mati voru ýmsir ágallar á málsmeðferðinni og ráðuneytið virðist sama sinnis,“ segir Ragnhildur Sverrsdóttir, talsmaður Björgólfs Thors í samtali við mbl.is. Hún segir að ráðuneytið hafi nýverið greint Björgólfi frá ákvörðun sinni

Hún bætir við að málið fari nú á byrjunarreit en tekur fram að húsið sé enn friðað á meðan það sé til meðferðar hjá Minjastofnun Íslands. Menn ráðist því ekki í neinar framkvæmdir á meðan.

Hyggst gera breytingar á innra byrði hússins

Í júlí í fyrra féllst Katrín Jakobsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, á tillögu Húsafriðunarnefndar, sem nú heitir Minjastofnun Íslands, um að friða innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11.

Húsafriðunarnefnd hafði óskaði eftir því í janúar í í fyrra að forstöðumaður hefði undirbúning á friðuninni vegna áætlana Björgólfs Thors um að gera miklar breytingar á því

Björgólfur Thor var mjög ósáttur við málsmeðferðina og kvartaði til Umboðsmanns Alþingis sem sendi í framhaldinu fyrirspurn til menntamálaráðuneytisins. Hann spurði m.a. um hvernig hefði verið staðið að málinu og hvort það hefði samræmst reglum stjórnsýsluréttar um andmælarétt og lögbundna rannsóknarskyldu.

„Ráðuneytið svaraði á þennan einfalda hátt að málið skyldi tekið upp aftur. Það hlýtur að fela í sér að ráðuneytið hafi verið sammála því að ekki hafi verið fyllilega staðið að þessu,“ segir Ragnhildur.

Minjastofnun Íslands tjáir sig ekki um málið að svo stöddu.

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert