Ganga gegn Monsanto á Austurvelli

Frá Austurvelli í Reykjavík.
Frá Austurvelli í Reykjavík. mbl.is/Sigurgeir

Búið er að boða til mótmæla gegn fyrirtækinu Monsanto á Austurvelli í Reykjavík en þau eru hluti af alþjóðlegum mótmælagöngum sem fara fram á morgun um allan heim. Er yfirgangi Monsanto í heiminum mótmælt sem og reglugerðarleysi er snertir efðabreyttar matvörur.

Fram kemur í tilkynningu að fólk frá yfir 45 löndum í yfir 400 borgum muni safnast saman til að mótmæla framferði Monsanto. Mótmælin á Austurvelli hefjast kl. 17 á morgun.

„Tami Monroe Canal á hugmyndina að mótmælagöngunni og skipulagi hennar. Hún kveðst telja  að fyrirtækið ógni framtíð dætra sinna og allra næstu kynslóða. Ógni heilbrigði, frjósemi og langlífi, og að hún sjálf geti ekki setið með hendur í skauti og beðið þar til aðrir gerðu eitthvað í málinu,“ segir í tilkynningu.

„Vörur frá Monsanto eru ekki aðeins skaðlegar umhverfinu heldur einnig fólki og geta valdið alvarlegum sjúkdómum. Það er skammarlegt að ríkisstjórnir heimsins og alþjóðasamfélagið hafi ekki gripið í taumana eða látið gera raunverulegar hlutlausar rannsóknir á erfðabreyttum fræjum og öðrum vörum Monsanto, áður en þær enda á matarborði almennings,“ segir ennfremur.

Mikil umræða hefur átt sér stað í tengslum við erfðabreytt matvæli og mögulega skaðsemi þeirra. Í október höfnuðu tveir hópar franskra vísindamanna rannsókn sem vakti mikla athygli, en jafnframt gagnrýni, þar sem fylgni var sögð milli neyslu á erfðabreyttum maís og æxlamyndunar hjá rottum. Vísindamennirnir sögðu þó að tilefni væri til ítarlegri rannsókna á málinu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert