Gengu í skrokk á húsráðanda

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Tveir karlmenn brutu sér leið inn í íbúð í fjölbýlishúsi á Akranesi í gærkvöldi og réðust á húsráðanda. Árásarmennirnir hafa verið handteknir og gista nú fangageymslu. Maðurinn sem varð fyrir árásinni var fluttur á sjúkrahús í bænum þar sem hann dvaldi í nótt. Hann særðist þó ekki alvarlega.

Lögreglan segir að árásarmennirnir, sem eru á þrítugsaldri, hafi áður komið við sögu lögreglu. Þeir ruddust inn á heimili mannsins snemma í gærkvöldi og gengu í skrokk á  honum. Þeir voru á bak og burt þegar lögreglu bar að garði en lögreglan handsamaði þá nokkru síðar.

Húsráðandinn, sem tilkynnti málið sjálfur til lögreglu, hlaut áverka á höfði og var færður undir læknishendur þar sem hann var undir eftirliti í nótt.

Lögreglan lítur málið alvarlegum augum. Rannsókn stendur yfir en ekki liggur fyrir hvers vegna mennirnir réðust á manninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert