Umferðarstofa hvetur alla ökumenn til að virða rauða ljósið í umferðinni, en stofnunin segir að henni hafi borist fjöldi ábendinga að undanförnu um bíla sem fari yfir á rauðu ljósi.
Þetta eigi einkum við þegar umferðarþungi sé mikill og þá sé gjarnan gefið í til að komast yfir gatnamót.
„Slíkt aksturslag skapar hættu fyrir alla vegfarendur og er sérstaklega varhugavert nú þegar gangandi vegfarendum, sem treysta á gönguljós, fer fjölgandi í umferðinni. Við biðjum því alla um að virða rauða ljósið - og muna að okkur liggur sjaldnast lífið á,“ segir Umferðarstofa á Facebook-síðu sinni.